Daniel Birkelund (Egill Bjarni Friðjónsson)
Lokaleikurinn í 13.umferð Olís-deildar karla var talinn afar áhugaverður fyrirfram þegar Þór tók á móti Fram. Framarar hafa verið í miklum vandræðum upp á síðkastið og í miklu leikjaálagi spilandi í Evrópudeildinni á milli leikja í Olís-deildinni síðustu viku. Það var þó ekki að sjá í leiknum á laugardaginn sem Framarar unnu með fjórtán mörkum, 34-20 fyrir norðan á heimavelli Þórs. Rætt var um leikinn og þá aðallega frammistöðu Þórs í leiknum í nýjasta þætti Handkastsins. ,,Ég veit ekki hvaða vegferð er í gangi fyrir norðan. Þetta var einhver ó-Þórslegasta frammistaða sem ég hef séð á ævinni. Þór hefur alltaf verið með þetta hugfar að gefast aldrei upp og deyja fyrir klúbbinn. Þeir hafa alveg sýnt það í vetur,” sagði Stymmi klippari og bætti við. ,,Þetta var gjörsamlegt þrot og uppgjöfin var algjör. Áhorfendur yfirgáfu húsið áður en leikurinn kláraðist. Fólk var búið að sjá nóg og fór heim. Andleysið var algjört og ég get ímyndað mér að ÍR-ingarnir hafi hugsað sér að möguleikinn að koma sér úr fallsætinu var möguleiki eftir þessa frammistöðu Þórs. Ef Þór ætlar að vera svona, þá fá þeir ekki stig það sem eftir lifir móts.” Þórsarar fara á Hlíðarenda á miðvikudaginn og mæta þar Val í næsta síðasta leik sínum fyrir áramót. Liðið er í 11.sæti deildarinnar með sjö stig, tveimur stigum meira en íR og ekki nema þremur stigum frá sæti í úrslitakeppninni. Það er því stutt á milli í þessu.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.