Carlos Martin Santos - Selfoss (Egill Bjarni Friðjónsson)
Selfoss unnu botnbaráttuslag 13.umferðar á miðvikudagskvöldið í síðustu umferð með einu marki, er ÍR kom í heimsókn. Tveimur stigum munaði á liðunum sem sátu í 12. og 10. sæti deildarinnar fyrir leikinn. Með sigrinum munar nú fjórum stigum á liðunum og Selfoss með betri innbyrgðis í viðureignum sínum gegn ÍR á tímabilinu en liðin gerðu jafntefli í fyrri umferðinni í Skógarselinum. Rætt var um leikinn í nýjasta þætti Handkastsins og þar lét Stymmi klippari stór jákvæð orð falla í garð þjálfara Selfoss, Carlos Martin Santos sem hefur náð undraverðum árangri með ungt og reynslu lítið lið Selfoss í Olís-deildinni í ár en liðið er nýliði í deildinni og margir spekingar höfðu miklar áhyggjur af gengi liðsins fyrir tímabilið. ,,Ef Carlos Martin heldur þessu liði upp þá er hann bara þjálfari ársins. Það skiptir engu máli hvað annað gerist, þó að Stefán Árnason geri Aftureldingu að deildarmeisturum. Ef Carlos heldur þessu liði uppi, þó svo að hann geri það í gegnum umspil þá er hann fyrir mér þjálfari ársins,” sagði Stymm klippari áður en gestur þáttarins, Einar Ingi Hrafnsson tók til máls. ,,Það eru ekkert margir leikmenn í þessu Selfoss liði sem þú værir eitthvað að pikka út til að styrkja þitt lið í Olís-deildinni. Það er alveg rétt að hann hefur gert ótrúlega heild úr hópnum og er að fá topp framlag frá 2-3 mismunandi leikmönnum í hverjum leik. Sem gerir það að verkum að þeir eru komnir með níu stig,” sagði Einar Ingi. Selfoss fer í heimsókn til Framara í næstu umferð en leikurinn fer fram á fimmtudagskvöldið í Úlfarsárdalnum klukkan 18:30.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.