Ágúst Guðmundsson (Sævar Jónasson)
Einn áhugaverðasti leikur umferðarinnar í Olís-deild karla fer fram í Kórnum í kvöld þegar HK og Stjarnan mætast klukkan 19:30. Tveimur stigum munar á liðunum en HK er í 10.sæti deildarinnar með 8 stig á meðan Stjarnan er með 10 stig í 8.sæti deildarinnar. Á milli þeirra er síðan Selfoss með níu stig en þeir mæta Fram sem er í 7.sæti deildarinnar annað kvöld. HK-ingar ætla greinilega að gera allt sem þeir geta til að fá sem mestan stuðning úr stúkunni því frítt verður á leikinn í boði Húsasmiðjunnar en HK tilkynnti þetta á samfélagsmiðlum sínum fyrr í vikunni. ,,Við málum stúkuna eldrauða fyrir strákana okkar og hvetjum þá alla leið. Koma svo,” segir í færslu HK Handbolta á samfélagsmiðlum. Fyrri leikur liðanna í Garðabænum endaði með eins marks sigri Stjörnunnar í hörkuleik. Ef litið er til síðustu fimm leikja allra liða í Olís-deildinni þá er HK og Stjarnan ein af köldustu liðum deildarinnar um þessar mundir. Einungis Þór hefur fengið færri stig í síðustu fimm leikjum. Þórsarar hafa fengið eitt stig í síðustu fimm leikjum, HK tvö og Stjarnan þrjú stig.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.