Ágúst Guðmundsson (Sævar Jónasson)
HK mætti Stjörnunni í Kórnum í fjórða leik fjórtándu umferðar Olís deildar karla í kvöld, sem var jafnframt síðasti leikur kvöldsins. Fyrir leik munaði tveimur stigum á liðunum, Stjarnan með 10 stig í áttunda sæti og HK með 8 stig í tíunda sæti. Má því sega að um mikilvægan leik var að ræða í barráttunni um að komast í úrslitakeppnina, en bæði lið komust í úrslitakeppnina í fyrra. HK voru sterkari í fyrri hálfleik og voru með fjögurra marka forystu þegar flautað var til hálfleiks, hálfleikstölur 15-11. HK byrjaði seinni hálfleik einnig vel og komst snemma í sjö marka forystu, Stjarnan náði þó að vinna sig til baka og voru búnir að jafna leikinn þegar um 8 mínútur voru eftir, við tók spennandi lokakafli, jafnt var á liðum þegar hálf mínúta var eftir, Jóhann Birgir Ingvarsson skoraði sigurmark leiksins í lokasókninni og tryggði HK mikilvægan eins marks sigur, lokatölur 24-23. Pétur Árni Hauksson hjá Stjörnunni átti góða frammistöðu í leiknum, var með 4 stolna bolta, 3 mörk af 5 skotum ásamt 7 stoðsendingum. Markahæstur í leiknum var Sigurður Jefferson Guarino hjá HK með 6 mörk, Ágúst Guðmundsson hjá HK var með 4 mörk. Hjá Stjörnunni voru þeir Benedikt Marinó Herdísarson, Gauti Gunnarsson og Jóel Bernburg með 4 mörk hver. Markvarðarpar HK, sem samanstendur af þeim Brynjari Vigni Sigurjónssyni og Róbert Erni Karlssyni, var með 9 varða bolta eða um 28,1% markvörslu. Hjá Stjörnunni var Adam Thorstensen með 10 varin skot eða um 30,3% markvörslu. Með þessum sigri hefur HK jafnað Stjörnuna að stigum, bæði lið með 10 stig í áttunda og níunda sæti deildarinnar.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.