Andri Erlingsson - ÍBV (Sævar Jónasson)
Í kvöld tók ÍBV á móti FH í fyrsta leik fjórtándu umferðar Olís deildar karla. Félögin voru jöfn að stigum fyrir leik, bæði með 15 stig í fimmta og sjötta sæti deildarinnar. ÍBV var með yfirhöndina í fyrri hálfleik og náði mest 6 marka forystu um miðbik fyrri hálfleiks, FH-ingar náðu þó að minnka muninn niður í 2 mörk þegar að liðin skyldu að í hálfleik, hálfleikstölur 15-13. Í seinni hálfleik var jafnræði milli liðanna framan af, en þegar að seinni hálfleikur var um það bil hálfnaður náði FH að jafna leikinn og voru komnir í forystu í fyrsta skipti í leiknum fljótlega á eftir. FH kláraði síðan leikinn með góðum lokakafla og endaði leikurinn með sex marka sigri FH, lokatölur 23-29. Petar Jokanovic var með 11 varða bolta eða um 29,7% markvörslu. Markvarðarpar FH sem samanstendur af Daníel Frey Andréssyni og Jóni Þórarinn Þorsteinssyni, voru samanlagt einnig með 11 varin skot eða um 32,4% markvörslu. Með þessum sigri er FH komið upp fyrir KA í fjórða sæti deildarinnar, KA á þó leik til góða og taka á móti Aftureldingu annað kvöld.
Ómar Darri Sigurgeirsson átti fínan leik fyrir FH, var með 4 mörk af 5 skotum ásamt 3 stoðsendingum. Markahæsti leikmaður leiksins var Sigtryggur Daði Rúnarsson með 10 mörk og hjá FH var Símon Michael Guðjónsson atkvæðamestur með 6 mörk.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.