Bjarki Jóhannsson (J.L.Long)
Þeim fjölgaði ekki spil mínútum Bjarka Jóhannssonar leikmanns FH í Olís-deildinni er liðið vann ÍBV í Vestmannaeyjum í 14.umferð Olís-deildar karla í síðustu umferð. Í síðustu viku var rætt um Bjarka í Handkastinu þar sem talað var um að hann væri dýrasti leikmaður Grill66-deildarinnar. Stymmi klippari tók umræðuna aftur upp þegar rætt var um leik ÍBV og FH í síðasta þætti Handkastsins þar hann benti hlustendum á að ellefu útileikmenn FH hafi skorað í leiknum. ,,En Bjarki Jóhannsson er ennþá límdur við varamannabekkinn. Ég ætla setja af stað #FreeBjarki - Ef FH ætlar bara að nota hann í ÍH sem er þeirra réttur þá myndi ég vilja sjá hann annarsstaðar. Við höfum talað um Þór, manni finnst leiðinlegt að sjá svona ungan og efnilegan leikmann sem maður var spenntur að sjá spila eftir að hafa komið frá Danmörku, er ekki að fá mínútur. Ég vil sjá sem mest af ungviðinum fá tækifæri í þessari deild,” sagði Stymmi klippari sem bendir félögum landsins að heyra í Ágústi Bjarna Garðarssyni formanni handknattleiksdeildar FH. ,,Takið upp símann og heyrið í Gústa vini mínum og sjáið hvort þið getið ekki græjað lánsdíl. Þetta er alltof spennandi leikmaður til að vera í ÍH, með fullri virðingu,” sagði Stymmi klippari í nýjasta þætti Handkastsins. FH verður í eldlínunni í kvöld þegar Stjarnan kemur í heimsókn í Kaplakrikann í 15.umferð deildarinnar. Leikur FH og Stjörnunnar hefst klukkan 18:45. Hress styður umfjöllun Handkastsins um Þjóðaríþróttina - Í tilefni þess fá allir hlustendur og lesendur Handkastsins 15% afslátt af öllum boozt á Hressbarnum og 15% afslátt af öllum staðgreiddum kortum út desember. Hress er staðsett á Dalshrauni 11 í Hafnarfirði. Verði ykkur að góðu.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.