Ísland Dana Björg Guðmundsdóttir (MARIJAN MURAT / dpa Picture-Alliance via AFP)
Íslenska kvennalandsliðið tapaði fyrsta leiknum á HM í handbolta gegn heimakonum í Þýskalandi með sjö mörkum, 32-25 en leikurinn var setningarleikur mótsins. Staðan í hálfleik var 18-14 fyrir Þýskalandi. Leikurinn fór fram í Porsche-Arena í Stuttgart en höllin var troðfull og íslenska liðið sýndi fín tilþrif á köflum og hékk vel í heimakonum lengi framan af. Elín Klara Þorkelsdóttir, Elín Rósa Magnúsdóttir, Dana Björg Guðmundsdóttir, Katrín Tinna Jensdóttir og Thea Imani Sturludóttir voru markahæstar í dag en þær skoruðu allar fjögur mörk en þurftu mis margar tilraunir til. Hafdís Renötudóttir átti erfitt uppdráttar í dag en hún varði átta skot þar af eitt víti og endaði með 21% markvörslu. Sara Sif Helgadóttir fékk smá tækifæri í lokin og varði eitt skot af þeim þremur sem hún fékk á sig. Hjá heimakonum var Alina Grijseels öflug en hún skoraði sjö mörk úr tíu skotum og Katharina Filter varði ellefu skot þar af eitt víti og endaði leikinn með 33% markvörslu.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.