Einar Örn Sindrason (J.L.Long)
Tveir leikir fara fram í 12.umferð Olís-deildar karla í kvöld en þremur leikjum lauk í gær og umferðin lýkur annað kvöld þegar botnbaráttuslagur fer fram í Skógarseli þegar ÍR og Þór mætast klukkan 18:30. Í Kórnum í kvöld mætast HK og ÍBV klukkan 18:30 en HK-ingar eru í 9.sæti deildarinnar þremur stigum á eftir ÍBV. Í Úlfarsárdalnum fá Íslands- og bikarmeistarar Fram , deildarmeistara FH í heimsókn og hefst sá leikur klukkan 19:00. Leikstjórnandi FH, Einar Örn Sindrason snýr aftur í lið FH í kvöld eftir að hafa glímt við nárameiðsli undanfarnar vikur. Þetta staðfesti hann í samtali við Handkastið en hann hefur ekert leikið með FH í rúmlega fimm vikur. FH er í 5.sæti deildarinnar sem stendur og þurfa nauðsynlega á sigri að halda til að halda í við liðin í toppbaráttunni en KA er með þremur stigum fleiri en FH í 4.sæti deildarinnar. Framarar eru hinsvegar í 8.sæti deildarinnar og eru í harðri baráttu um laust sæti í úrslitakeppnina. Það er hinsvegar nóg eftir af mótinu og gríðarlega spenna er að myndast bæði á toppi og botni deildarinnar.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.