Guðmundur Bragi Ástþórsson ((Eyjólfur Garðarsson)
Einn leikur fór fram í sænsku úrvalsdeildinni í dag á meðan fjórir fóru fram í dönsku úrvalsdeildinni en alls voru fjögur Íslendingalið í eldlínunni í þessum leikjum. Við byrjum í Kristianstad í Svíþjóð þar sem Einar Bragi Aðalsteinsson sneri aftur í lið heimamanna með stæl og var besti maður liðsins en þeir unnu flottan sigur á Hammarby, 35-27. Einar Bragi skoraði sex mörk úr sex skotum og fékk eina brottvísun að auki. Kristianstad í þriðja sæti deildarinnar aðeins tveimur stigum frá efsta sætinu. Í Danmörku unnu Kristján Örn Kristjánsson eða Donni og liðsfélagar hans í Skanderborg nauman sigur á HØJ Elite á útivelli, 34-35. Donni var drjúgur fyrir gestina eins og oft áður en hann skoraði sex mörk úr tíu skotum og gaf þrjár stoðsendingar. Mikilvægur sigur hjá gestunum en þeir eru aðeins einu stigi frá öðru sæti deildarinnar. Það var einnig Íslendingaslagur í dönsku úrvalsdeildinni þegar Ribe-Esbjerg tók á móti Ringsted. Elvar Ásgeirsson átti erfitt uppdráttar í liði heimamanna en hann klikkaði á eina skotinu sínu en gaf tvær stoðsendingar. Guðmundur Bragi Ástþórsson var frábær í liði gestanna og var stór ástæða fyrir því að þeir tóku stigin tvö með sér heim. Hann skoraði tíu mörk úr ellefu skotum og gaf einnig tvær stoðsendingar. Ísak Gústafsson var einnig flottur en hann skoraði fimm mörk úr sex skotum og gaf eina stoðsendingu. Lokatölur 27-31 fyrir Ringsted sem eru aðeins stigi á eftir Ribe-Esbjerg eftir sigurinn en þeir sitja í tólfta sæti. Hin úrslit dagsins má sjá hér fyrir neðan. Úrslit dagsins: Svíþjóð Kristianstad 35-27 Hammarby Danmörk HØJ Elite 34-35 Skanderborg Ribe-Esbjerg 27-31 Ringsted Grindsted 29-35 Skjern Fredericia 33-26 Nordsjælland

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.