Stefán Magni Hjartarson (Egill Bjarni Friðjónsson)
Óvænt nafn skaust upp á stjörnuhimininn í Myntkaup-höllinni á mánudagskvöldið er Afturelding vann endurkomu sigur á ÍR í 15.umferð Olís-deildar karla. Andri Freyr Friðriksson hafði skorað eitt mark í Olís-deildinni fyrir leikinn gegn ÍR á mánudagskvöldið en gerði sér lítið fyrir og skoraði sjö mörk úr hægra horninu úr átta skotum og var einn af stórum þáttum þess að Afturelding náði að vinna botnlið ÍR í leiknum. Andri Freyr hefur verið í litlu hlutverki með Aftureldingu í Olís-deildinni en hefur verið að spila með Hvíta riddaranum í Grill66-deildinni en Hvíti riddarinn er venslafélag Aftureldingar. Tveir örvhentir hornamenn Aftureldingar, þeir Stefán Magni Hjartarson og Brynjar Búi Davíðsson voru ekki í leikmannahópi Aftureldingar í leiknum vegna meiðsla. Stefán Magni er að glíma við smávægilega tognun aftan í læri en Afturelding á mikilvægan leik gegn FH í 8-liða úrslitum Powerade-bikarsins í kvöld klukkan 20:00. Andri Freyr er því fjórði hægri hornamaður Aftureldingar en átti stórkostlega frammistöðu í sigrinum gegn ÍR. ,,Hann var oft að höggva hnútinn eftir erfiðar og langar sóknir og spilaði allan leikinn og var frábær varnarlega. Þetta var þvílík frammistaða hjá þessum strák,” sagði Ásgeir Jónsson meðal annars í nýjasta þætti Handkastsins þar sem frammistaða Andra Freys var rædd.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.