Stiven Tobar Valencia Ísland (Beautiful Sports / Orange Pictures / DPPI via AFP)
Það kom einhverjum á óvart að í lokahópi Íslands fyrir EM 2026 sem Snorri Steinn Guðjónsson tilkynnti í gær var enginn Stiven Tobar Valencia leikmaður Benfica í Portúgal en Stiven hefur unnið sér hægt og bítandi í stærra hlutverk hjá íslenska landsliðinu og var til að mynda í landsliðshópnum í síðasta verkefni Snorra Steins. Handkastið birti frétt þess efnis kvöldið áður en hópurinn var tilkynntur að Stiven Tobar yrði ekki í hópnum. Snorri Steinn Guðjónsson var spurður út í þá atburðarrás ,,Mér fannst mikilvægt að ég sjálfur myndi hringja í Stiven og Sigvalda. Hvað menn gera síðan með þær upplýsingar er ekki í mínum höndum. Þetta skiptir mig ekki miklu máli,” sagði Snorri Steinn en hver er ástæðan fyrir því fyrst og fremst afhverju hann skilur Stiven eftir heima? ,,Númer 1, 2 og 3 trúi ég því að ég sé að velja okkar bestu hornamenn og þetta sé sterkasta liðið sem ég er að velja. Það er mín trú og skoðun einhverja annarra skiptir mig ekki neinu máli hvað það varðar. Þetta eru margir þættir sem skipta máli og sem við skoðum. Allt frá tölfræði og í taktíska hluti. Þetta varð ofan á,” sagði Snorri Steinn sem viðurkennir að reynsla Bjarka Más hafi einnig spilað inní. ,,Orri Freyr hefur í grunninn bara farið á eitt stórmót sem okkar fyrsti hornamaður og eftir að Aron Pálmarsson hætti fannst mér mikilvægt að hafa smá reynslu og kannski vóg það þyngra en hitt.” ,,Ég hef alveg rætt það og ég veit að Stiven getur spilað bakvörðinn varnarlega og það er taktískur hlutur sem hefur unnið með honum en þegar upp er staðið og þegar ég skoðaði hópinn þá var sú uppstilling ekki nægilega ofarlega til að það yrði á kostnað Bjarka,” sagði Snorri Steinn meðal annars. Lengra og ítarlegra viðtal varðandi valið á vinstra horninu og hverjir eiga að spila bakvörðinn varnarlega á EM í janúar má sjá hér að neðan.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.