Gísli Þorgeir Kristjánsson (Sævar Jónasson)
Íslenska landsliðið hefur leik á Evrópumótinu í Kristianstad í Svíþjóð á morgun klukkan 17:00 þegar strákarnir okkar mæta Ítalíu. Handkastið verður á svæðinu og gerir upp leikinn í hlaðvarpsþætti sínum beint eftir leik. Gísli Þorgeir Kristjánsson var í viðtali hjá Handkastinu spurður út í fyrstu tvo leikina gegn Ítalíu og Póllandi hvort um væri að ræða formsatriði fyrir íslenska liðið að vinna eins og margir vilja meina. ,,Ég lít á þetta þannig að ef við erum góðir og erum á okkar degi þá getum við unnið hvaða landslið sem er, það er mín skoðun. Þá er Ítalía, Pólland og Unverjaland ekkert undanskilin því. En á sama tíma, það er eitt að spila vel en síðan þegar þú ert kominn í færin og þú ætlar að klikka, þá segir það sig sjálft að þá verður vesen.” ,,Ef við verðum ekki einbeittir gegn Ítölum, Póllandi og Ungverjum þá verður þetta bölvað vesen. Þessar þjóðir eru með frábæra leikmenn líka. Það eru tvær hliðar á þessu, þessar þjóðir eru með plön hvernig þær ætla að stöðva Ísland osfrv. En við gerum þær kröfur á okkur sjálfa að við ætlum að reyna vinna riðilinn og við ætlum að gera okkar besta til að ná því," sagði Gísli Þorgeir í viðtali við Handkastið í síðustu viku.

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.