Orri Freyr leikmaður Sporting (ANDRZEJ IWANCZUK / NurPhoto via AFP)
Tímabilinu í Evrópu lauk um miðjan júní mánuð er úrslitahelgin í Meistaradeildinni fór fram í Köln. Þar fór Magdeburg með sigur af hólmi eftir sigur á Þýskalandsmeisturum Füchse Berlín 32-26 í úrslitaleik keppninnar. Auk þess að fá þann heiður að vera besta félagslið Evrópu kepptust þátttakendafélögin einnig um mikilvæg fjárhagsleg verðlaun. Samkvæmt spænska fjölmiðlinum Mundo Deportivo hefur Meistaradeildin í ár dreift 4,718 milljónum evra á milli 16 þátttökuliða. Af þessu voru 750.000 evrur dreift á þau fjögur félög sem spiluðu á Final4 helginni. Íslendingalið Fredericia, sem leikur undir stjórn Guðmundar Þ. Guðmundssonar þénaði minnst allra liða í Meistaradeildinni í ár. Sigurvegararnir í Magdeburg fengu stærstu kökuna. Félagið fékk samtals 590.000 evrur, um 84 milljónir króna fyrir heildarárangur sinn í Meistaradeildinni á þessu tímabili. Aftur á móti þarf FC Barcelona að sætta sig við verulega fjárhagslega lækkun frá síðasta tímabili. Barcelona endaði í fjórða sæti og þénaði aðeins 379.000 evrur, um 54 milljónir króna á þessu tímabili, sem samkvæmt Mundo Deportivo er heil 38 prósenta lækkun miðað við síðasta tímabil, þegar félagið vann keppnina. Fyrir Final4 helgina hafði Barcelona þegar þénað 304.000 evrur í gegnum fastar upphæðir fyrir þátttöku, sigurbónus, stig í riðlakeppninni og sigra í útsláttarkeppninni eftir riðlakeppnina. Fjórða sætið þeirra skilaði þeim 75.000 evrum til viðbótar. Füchse Berlin fékk 541.000 evrur en eins og fyrr segir endaði liðið í öðru sæti eftir tap í úrslitaleiknum, en franskafélagið HBC Nantes, sem endaði í þriðja sæti eftir sannfærandi sigur á Barcelona í leiknum um bronsið, fékk 455.000 evrur. Mesta höggið er sennilega fyrir stórlið PSG sem töpuðu í 12-liða úrslitum gegn Pick Szeged. Liðið þénaði níunda mest af öllum félögunum eða 262.000 evrur í heildina. Bæði Álaborg og Sporting þénuðu meira en franska stórliðið. Mundo Deportivo tekur það fram í frétt sinni að handbolti sé enn langt á eftir öðrum íþróttagreinum eins og fótbolta, tennis og golfi, þar sem verðlaunaféð er mun hærra. ,,Fyrir félögin skiptir þó hver evra miklu máli, þar sem hún hjálpar þeim að viðhalda samkeppnishæfum liðum á hæsta stigi Evrópu," segir í greininni hjá Mundo Deportivo. Svona var peningunum dreift í Meistaradeildinni 2024-25 (í evrum):
1. SC Magdeburg (Þýskaland) – 590.000
2. Füchse Berlin (Þýskaland) – 541.000
3. HBC Nantes (Frakkland) – 455.000
4. FC Barcelona (Spánn) – 379.000
5. Veszprém (Ungverjaland) – 307.000 - Töpuðu í 8-liða úrslitum
6. Pick Szeged (Ungverjaland) – 271.000 - Töpuðu í 8-liða úrslitum
7. Sporting CP (Portúgal) – 270.000 - Töpuðu í 8-liða úrslitum
8. Álaborg Håndbold (Danmörk) – 270.000 - Töpuðu í 8-liða úrslitum
9. Paris SG (Frakkland) – 262.000 - Töpuðu í 12-liða úrslitum
10. Orlen Wisla Plock (Pólland) – 227.000 - Töpuðu í 12-liða úrslitum
11. Kielce (Pólland) – 221.000 - Töpuðu í 12-liða úrslitum
12. Dinamo Bucuresti (Rúmenía) – 220.000 - Töpuðu í 12-liða úrslitum
13. Kolstad (Noregur) – 195.000 - Komust ekki uppúr riðlinum
14. Eurofarm Pelister (Norður Makedónía) – 180.000 - Komust ekki uppúr riðlinum
15. HC Zagreb (Króatía) – 175.000 - Komust ekki uppúr riðlinum
16. Fredericia Handboltafélagið (Danmörk) – 155.000 - Komust ekki uppúr riðlinum
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.