Marko Grgic (RONNY HARTMANN / dpa-Zentralbild / dpa Picture-Alliance via AFP)
Marko Grgic, markahæsti leikmaður þýsku úrvalsdeildarinnar hefur skrifað undir samning við Flensburg frá og með sumrinu 2026. Nú er hinsvegar sterkur orðrómur um það að Þjóðverinn, Marko Grgic gæti gengið í raðir Flensburg strax í sumar. Samkvæmt heimildum Handkastsins eru Flensburg og Eisenach, félag Marko Grgic í viðræðum um kaupverð á Grgic en talað er um að það gætu orðið stærstu fjárhæðir í sögu þýsku úrvalsdeildarinnar. Marko Grgic hefur farið á kostum með liði Eisenach síðustu tvö tímabil. Á síðustu leiktíð endaði hann sem markahæsti leikmaður Bundesligunnar með 294 mörk en næstur var Daninn, Mathias Gidsel með 274 mörk. Segja mætti að þeir hafi verið í algjörum sérflokki í markaskorun í deildinni því þriðji markahæstur var, vinstri hornamaður Flensburg og danska landsliðsins, Emil Jakobsen með 229 mörk. Meðal ástæða þess að Flensburg eru tilbúnir að kaupa Grgic strax í sumar fyrir mikla fjárhæð er sú að danski landsliðsmaðurinn, Mads Mensah er orðaður við danska úrvalsdeildarliðið Skjern. Sagt er í erlendum miðlum að hann gæti farið þangað á næstu dögum. Mensah hefur leikið með Flensburg síðustu fimm tímabil. Danska Instagram-síðan Rygtebors segir ennfremur frá því að leikmaður Skjern, Noah Gaudin sé á leið til stórliðs PSG í Frakklandi.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.