Rasmus Lauge ((BO AMSTRUP / Ritzau Scanpix via AFP)
Eftir fimm mánaða fjarveru er Rasmus Lauge kominn aftur á handboltavöllinn. Þessi reynslu mikli leikstjórnandi, tók þátt í æfingu dagsins með danska félaginu Bjerringbro-Silkeborg og hóf þar með sinn undirbúning fyrir tímabilið. Æfingin hjá Lauge í dag markaði þar með endurkomu hans eftir langt hlé þar sem fjölskyldan hefur verið í brennidepli. Rasmus Lauge lék og æfði ekkert með liði Bjerringbro-Silkeborg frá miðjum febrúar en hann greindi frá ástæðunni í maí. Lauge og kona hans, eignuðust dóttir um miðjan maí sem er ekki frásögufærandi nema fyrir þær sakir að dóttirin fæddist nærri fjórum mánuðum fyrir tímann. Bjó fjölskyldan fyrstu þrjá mánuði dótturinnar inn á vökudeild. ,,Rasmus var með á æfingu í dag. Það er alveg frábært að fá hann aftur í hópinn. Við hlökkum til þess,“ segir þjálfarinn Simon Sørensen við Midtjyllands Avis. Þótt hann sé nú kominn aftur meðal liðsfélaga sinna tekur Simon það fram að enn eigi Lauge langt í land með að ná fyrri styrk og segir að það muni taka sinn tíma fyrir Lauge að koma að fullu til baka. Hann fái sinn tíma til þess. Rasmus Lauge varð heimsmeistari með Dönum í janúar síðastliðnum.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.