Tvö lið lagt upp laupana í pólsku úrvalsdeildinni
(Piotr Matusewicz / DPPI via AFP)

Szymon Działakiewicz er félagslaus. (Piotr Matusewicz / DPPI via AFP)

Tvö pólsk lið sem léku í úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð hafa lagt upp laupana og leika ekki í úrvalsdeildinni á næstu leiktíð þrátt fyrir að hafa ekki fallið úr deildinni stigalega séð.

Um er að ræða félögin Azoty Pulawy og Gornik Zabrze en það síðar nefnda lék í riðlakeppni Evrópukeppninnar á síðustu leiktíð og hefur verið á meðal toppliða í pólsku úrvalsdeildinni síðustu ár.

Handkastið hafði samband við pólskan handboltasérfræðing og spurði hann út í ástæðuna fyrir því að tvö lið hafi lagt upp laupana en fyrir ári síðasta tímabil hætti Unia Tarnów einnig við þátttöku í úrvalsdeildinni og lék í fjórðu efstu deild á síðustu leiktíð.

,,Félögin eru ekki beint að fara á hausinn. Þau hafa misst aðal styrktaraðila sína og ekki náð finna nýja styrktaraðila í staðin. Þar sem pólska úrvalsdeildin er atvinnumannadeild þurfa öll lið að uppfylla ákveðnum kröfum. Nú er það orðið staðreynd að þrjú félög á einu ári hafa ekki náð að uppfylla þær kröfur og hafa því þurft að leggja liðið niður og segja upp öllum samningum við leikmenn sína og þjálfara," sagði pólski sérfræðingurinn sem segir að ein af kröfunum sem félögin eiga í erfiðleikum með að uppfylla sé sú að öll félög þurfa að vera með fjármagn upp á rúmlega 66 milljónir íslenskra króna.

,,Þetta er sorgleg þróun og eitthvað sem þarf að breyta ef ekki á að fara verr fyrir deildinni."

Í liði Garnik Zabrze voru landsliðsmenn Póllands, Rúmeníu, Tékklands og Úkraínu sem eru nú félagslausir og þurfa að leita sér að nýjum atvinnurekanda. Auk þess voru ungir og efnilegir pólskir leikmenn sem þurfa nú að finna sér ný félög fyrir næsta tímabil.

Hjá Azoty Pulawy lék til að mynda georgíski landsliðsmaðurinn, Giorgi Dikhaminjia sem KA samdi við fyrir helgi. KA menn hafa því nýtt sér vandræðin sem Pulawy lentu í og sömdu við Giorgi sem var skyndilega samningslaus.

Einn af þeim leikmönnum sem ætlaði að spila með Gornik Zabrze er pólski landsliðsmaðurinn, Szymon Działakiewicz sem gekk til liðs við félagið fyrr í sumar frá Minden. Hann hefur víða komið við á ferlinum til að mynda hjá Pick Szeged og Gummersbach.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top