Arnar Freyr í leik með Melsungen ((Swen Pförtner / dpa Picture-Alliance via AFP)
Melsungen er alþjóðlegasta liðið í þýsku úrvalsdeildinni, það er það félag sem er með leikmenn frá flestum þjóðum. Það er Instagram síðan rthandball sem tók saman hvaða félög í þýsku úrvalsdeildinni væru með leikmenn frá flestum þjóðum. Melsungen eru með leikmenn frá þrettán þjóðum en þar á meðal eru tveir Íslendingar, þeir Arnar Freyr Arnarsson og Reynir Þór Stefánsson sem gekk í raðir félagsins frá Fram í sumar. Hjá Melungen eru leikmenn frá Þýskalandi, Svartfjallalandi, Íslandi, Ungverjalandi, Póllandi, Króatíu, Spáni, Lettlandi, Svíþjóð, Danmörku, Portúgal, Hvíta-Rússlandi og Túnis. ,,Það er bara gaman að við séum með svona marga leikmenn frá svona mörgum löndum. Það er örugglega alveg einstakt að heyra stundum sex til sjö tungumál í einum klefa. Við tölum allir ensku og það er tungumálið sem við notum á vellinum, oftast. Klefamenningin verður bara fjölbreyttari og menn hafa verið að koma með þjóðarrétti frá sínum löndum sem er mjög áhugavert og skemmtilegt," sagði Arnar Freyr Arnarsson í samtali við Handkastið sem segir að íslensku leikmenn Melsungen hafi verið að gefa liðsfélögum sínum harðfisk í klefanum. ,,Við höfum verið að láta þá fá harðfisk en þeir eru fljótir að spýta því út úr sér," sagði Arnar Freyr sem segist hafa gaman að því að sjá viðbrögð liðsfélaga sína þegar þeir fá sér harðfisk. Næsta lið á eftir Melsungen er lið Kiel sem er með leikmenn frá ellefu þjðoðum. Næst koma síðan Gummersbach, Fuchse Berlín og Stuttgart öll með leikmenn frá níu mismunandi þjóðum. Listann yfir tíu alþjóðlegustu liðum þýsku úrvalsdeildinnar má sjá hér að neðan.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.