Juri Knorr Þýskaland (SOEREN STACHE / dpa Picture-Alliance via AFP
Dönsku meistararnir í Álaborg eru byrjaðir sinn undirbúning fyrir komandi tímabil eins og flest önnur lið í Evrópu. Það er stórt ár framundan hjá Álaborg sem mætir til leiks með dýrasta lið í sögu félagsins, eins og við greindum frá á dögunum. Ein óvæntustu félagaskipti ársins voru sennilega þau þegar þýski landsliðsmaðurinn Juri Knorr gekk í raðir Álaborgar frá Rhein-Neckar Lowen. Eftir aðeins nokkrar æfingar hjá nýju félagi er þegar ljóst að Knorr hefur sett svip sinn á liðið, þetta sagði Niklas Landin í viðtali á dögunum við Dyn í tengslum við kveðjuleik Patrick Wiencek. ,,Það sem hann hefur komið með sér, andrúmsloftið sem hann færir, ég er ótrúlega spenntur og mjög jákvæður,“ sagði Landin aðspurður út í komu Knorr til danska félagsins. Knorr flutti frá Rhein-Neckar Löwen í sumar eftir sex ár í Bundesligunni. Fyrir marga kom það á óvart að leikmaður af hans stærðargráðu yfirgefi sterkustu deild heims. Það átti einnig við um Landin. ,,Ég var mjög hissa á að hann yfirgaf Þýskaland. En ég gat líka skilið það. Eins og hann sagði sjálfur þá vill hann spila í Meistaradeildinni og hann fær tækifæri til þess hér,“ segir Landin. ,,Hann passar ótrúlega vel inn. Hann spilar frábærlega með hinum og fær þá í takt. Þetta gæti orðið mjög spennandi,“ segir markvörður Álaborgar og fyrrum markvörður danska landsliðsins sem er ánægður að fá Þjóðverja í liðið. ,,Nú fæ ég líka tækifæri til að rifja upp þýskukunnáttu mína aðeins aftur, því Juri er hér.“ ,,Hann er ennþá ungur og hann gæti auðveldlega snúið aftur til Þýskalands einn daginn. En eins og staðan er núna vona ég að hann verði lengi í Danmörku," sagði Landin að lokum en Juri Knorr er fæddur árið 2000 og varð 25 ára fyrr á árinu.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.