Rune Dhamke - Kiel ((MARIUS BECKER / dpa Picture-Alliance via AFP)
THW Kiel hefur fundið eftirmann fyrir Patrick Wiencek sem fyrirliða liðsins en línumaðurinn, Patrick Wiencek lagði skóna á hilluna í sumar. Nýr fyrirliði Kiel verður þýski vinstri hornamaðurinn, Rune Dahmke en ásamt honum verða Domagoj Duvnjak og Nikola Bilyk í fyrirliðateyminu. Þjálfari Kiel, Filip Jicha leggur áherslu á að valið á Dahmke hafi verið augljóst. ,,Hann hefur verið leiðtogi í mörg ár, bæði á vellinum og í klefanum, ásamt 'Dule'. Hann segir sína skoðun, hvort sem vel eða illa gengur, alltaf fyrir félagið," sagði Filip Jicha. Íþróttastjóri THW Kiel, Viktor Szilagyi er ánægður með nýja fyrirliðann og hrósar honum í hástert. ,,Rune hefur byggt upp stöðu sína í mörg ár og býr yfir öllum þeim eiginleikum sem maður vill fá frá fyrirliða. Hann verðskuldar þetta að miklu leyti.“ Fyrir Dahmke, sem er fyrsti fyrirliði Kiel sem er uppalinn hjá félaginu síðan 1977, er þetta sérstök stund. ,,Sem barn leit ég upp til leikmanna Kiel og sérstaklega fyrirliðanna. Að bera fyrirliðabandið sjálfur núna er meira en mikill heiður, fyrir einhvern frá Kiel er ekkert stærra.“ Fyrir þýska landsliðið hefur hann spilað 94 leiki og skorað 137 mörk og hefur unnið Evrópumeistaratitilinn árið 2016 og Ólympíusilfur í París 2024.
Rune Dahmke sem er fæddur árið 1993 gekk í raðir THW Kiel 15 ára gamall og hefur verið fastamaður í aðalliðinu síðan 2014. Hann hefur unnið Meistaradeildina (2020), EHF-bikarinn (2019), fjóra þýska meistaratitla, fjóra bikarmeistaratitla og sex Ofurbikara með félaginu. Hann hefur spilað 538 leiki og skorað 983 mörk fyrir félagið.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.