Kvennahandboltinn á erfitt uppdráttar – Auknar kröfur hjálpa ekki til
(Beate Oma Dahle / NTB / AFP) / Norway OUT / NORWAY OUT

Díana Dögg Magnúsdóttir ((Beate Oma Dahle / NTB / AFP) / Norway OUT / NORWAY OUT

Eins og við greindum frá í gær hefur þýska meistaraliðið, HB Ludwigsburg leyst alla leikmenn sína af samningum. Þetta var tilkynnti félagið í gær. Félagið kom handboltaheiminum á óvart fyrir tveimur vikum með því að óska eftir gjaldþrotaskiptum. Nú hefur félagið gefið öllum leikmönnum grænt ljós á að skipta um félagið og er því ljóst er að lífróður stjórnenda HB Ludwigsburg síðustu vikur hefur ekki borið tilsettan árangur.

Handkastið hafði samband við landsliðskonuna, Díönu Dögg Magnúsdóttur sem leikið hefur í Þýskalandi undanfarin ár og nú með Blomberg-Lippe en Blomberg-Lippe endaði í 3.sæti þýsku deildarinnar á síðustu leiktíð og töpuðu í bikarúrslitum gegn Ludwigsburg.

Umræðan verið áhugaverð

,,Þetta eru náttúrulega bara alls ekki nógu góðar fréttir. Sem leikmaður í deildinni er auðvitað leiðinlegt að besta lið síðustu ára sé að fara fyrir bí en á sama tíma gefur það meiri von til annarra liða til að vinna titlana sem í boði eru," sagði Díana Dögg en Ludwigsburg hefur verið þýsku meistari síðustu fjögur tímabil.

,,Umræðurnar hafa verið áhugaverðar, aðallega um það hver myndi redda þeim þessum milljónum evra sem vantaði upp á og jafnvel hvort það yrði gert svo hvað leikmennirnir munu gera og hvað sé í boði fyrir þær. Að sjálfsögðu eru einhverjar eftirsóttar eins og Bundsen en mögulega erfiðara fyrir aðrar að finna annað lið í Meistaradeildinni."

Díana segir að þetta hafi einnig mikil áhrif á úrslitakeppnina í þýsku deildinni en átta efstu liðin fara í 8-liða úrslitakeppni og fjögur neðstu liðin fara í umspil til að forðast fall.

,,Þetta hefur líka áhrif á meistara meistaranna núna í lok mánaðarins og var lengi verið að spá í hvaða lið við myndum fá þar í staðinn. Held að það sé núna komið á hreint að við mætum THC Thuringer."

,,Það sem er einnig mjög áhugavert, og þar sem ég set kannski spurningamerki við deildina er að fyrir lok síðasta tímabils gaf HBF öllum liðum í efstu deild endurnýjað leyfi um að spila í deildinni. Þessi leyfi eru gefin út á hverju ári en þar þarf að standast kröfur um fjárhag og fleiri þætti. Hvernig fór þetta framhjá þeim? Því fjárhæðin sem vantar upp á að geta haldið áfram er ekkert lág," sagði Díana sem virðist vera gáttuð yfir því að félagið hafi komist í gegnum leyfiskröfurnar fyrir sumarið.

Karla boltinn á sviðið

Ludwigsburg er annað stórliðið í evrópskum kvennahandbolta sem lendir í fjárhagserfiðleikum á stuttum tíma því norska liðið, Vipers Kristiansand sem varð gjaldþrota í upphafi ársins. Mikil umræða hefur skapast um stöðu alþjóðlegs kvennahandbolta og þá staðreynd að margir leikmenn á stærsta sviðinu vinni aðra vinnu samhliða því að iðka handbolta.

,,Það er mjög algengt hér að unnið sé samhliða en það er oftar en ekki bara aukavinna svo að leikmenn hækki ekki í skattaþrepi og eitthvað svoleiðis en svo eru margar í námi líka. Þetta er auðvitað ekki eins og það best verður á kosið en svona er þetta bara. Við lifum því miður ekki lengi á handboltanum eftir að ferillinn er búinn og þá er oft gott að vera með smá reynslu eða nám að baki sér," sagði Díana sem tekur undir að kvennahandbolti eigi erfitt uppdráttar.

,,Þó vel sé mætt á leiki þá er það bara hér eins og annars staðar að karla boltinn á sviðið og auðveldara fyrir þá að fá styrktaraðila heldur en kvenna liðin, sama hversu góð liðin eru. Svo er deildin líka alltaf að gera meiri og meiri kröfur á liðin varðandi utanumhald sem ég held að sé ekkert endilega að hjálpa félögunum," sagði Díana sem nefnir til að mynda að skylda sé hafa stúku báðu megin, leikið sé á keppnisdúk, LED skilti í kringum völlinn og allt þetta sem er oft erfiðara fyrir minni liðin að framkvæma.

Einhverjar verða í vandræðum

En nú er að ljóst að leikmenn Ludwigsburg þurfa nú að finna sér nýtt lið og hafa til þess skammann tíma enda ekki nema tæpur mánuður þangað til að stærstu deildir Evrópu fari af stað.

,,Það eru sumir leikmenn liðsins alveg eftirsóttir og munu að öllum líkindum finna annað lið sem leikur í Meistaradeildinni frekar fljótt en svo held ég að margar verði líka í vandræðum. Mörg félög eru búin að setja liðin sín saman og þannig séð búnir með “budgetið” svo þær munu ekki fá eins sterka samninga og þær voru á, hjá Ludwigsburg. Þá eru enn aðrar sem mega örugglega þakka fyrir það að komast í eða finna sér lið í Evrópudeildinni sem getur borgað eitthvað," sagði Díana Dögg Magnúsdóttir í samtali við Handkastið.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top