Pedro Portela ((MARCUS BRANDT / dpa Picture-Alliance via AFP)
Óvæntar fréttir bárust úr herbúðum Sporting er félagið tilkynnti í gær að örvhenti landsliðsmaður Portúgals og leikmaður portúgölsku meistarana, Pedro Portela hafi sagt skilið við félagið. Portela átti eitt ár eftir af samningi sínu við félagið. Tímapunkturinn verður að teljast vera ansi athyglisverður því langt er gengið inn í sumar og flest ef ekki öll lið í Evrópu farin að undirbúa næsta tímabil og tilbúin með sína leikmannahópa. Orri Freyr Þorkelsson er leikmaður Sporting. ,,Íþróttirnar gáfu mér allt sem ég þurfti til að þroskast sem íþróttamaður og manneskja," sagði Pedro Portela í ítarlegu viðtali við samfélagsmiðla Sporting þegar þetta var tilkynnt. ,,Margar sögur og stundir sem við lifðum sem munu lifa í minningunni um ókomna tíð," segir í tilkynningunni frá félaginu. Portela er uppalinn hjá Sporting og lék með liðinu frá 2007-2018. Þá fluttist hann til Frakklands og lék þar í fimm ár með Tremblay-en-France og HBC Nantes. Hann hefur leikið með Sporting frá árinu 2023. Þá á Portela tæplega 90 landsleiki að baki fyrir Portúgal og hefur hann skorað 286 mörk fyrir þjóð sína. Hver ástæðan fyrir því að Portela yfirgefi félagið á þessum tímapunkti kemur hvergi fram. Hefur hann strax verið orðaður við þýska félagið Wetzlar.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.