Jaron Siewert ((MARIUS BECKER / dpa Picture-Alliance via AFP)
Eins og Handkastið greindi frá í júlí þá rennur samningur Jaron Siewert þjálfara Þýskalandsmeistara Fucshe Berlín út eftir komandi tímabil. Samkvæmt heimildum Handkastsins ganga samningaviðræður milli Siewert og Fuchse Berlín hægt og eins og staðan er í dag er langt í að aðilar nái saman. Samkvæmt heimildarmanni Handkastsins sem er vel innvinklaður inn í þýskan handbolta gæti það farið svo að Siewert yfirgefi Berlínarrefina næsta sumar. ,,Ég get ekki staðfest eitt né neitt en ég hef heyrt að það samningaviðræður gangi illa. Það gæti því farið svo að Siewert yfirgefi Fuche eftir tímabilið. Viðræðurnar milli aðilanna halda þó áfram næstu vikur," sagði heimildarmaður Handkastsins. Þá vakna strax vangaveltur hvort að næsta verkefni hans verði stórlið Kiel í Þýskalandi en í gær kom það fram að Guðjón Valur Sigurðsson þjálfari Gummersbach sem hefur verið sterklega orðaður við starf Kiel væri ekki á leið þangað en hann er samningsbundinn Gummersbach til sumarsins 2027. Nú beinast augun á tveimur líklegum kandídötum til að taka við Kiel af Filip Jicha sem þjálfað hefur liðið frá árinu 2019. Um er að ræða Jaron Siewert og Talant Mushanbetovich Dujshebaev þjálfara Kielce í Póllandi. Það verður fróðlegt að fylgjast framvindu mála bæði hjá Fuchse Berlín, Kiel og Kielce.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.