Maik Machulla ((FRANK MOLTER / dpa Picture-Alliance via AFP)
Maik Machulla nýráðinn þjálfari Rhein-Neckar Lowen segir félagið vera miðlungs Bundesligu-félag og sér fram á langt uppbyggingarferli framundan hjá félaginu en liðið hefur gengið í gegnum miklar leikmannabreytingar í sumar auk vonbrigða á síðustu tímabilum. Maik Machulla tók við liði Rhein-Neckar Lowen í sumar en áður þjálfaði hann Álaborg og Flensburg. Í viðtali við Mannheimer Morgen segir hinn 48 ára gamli þjálfari að liðið verði að teljast „miðlungs Bundesliga-félag“ eins og er. Hann leggur áherslu á mikilvægi heiðarleika og vera með raunhæfar væntingar. „Það er betra að sætta sig við raunveruleikann,“ segir hann og ber stöðuna saman við knattspyrnufélagið Schalke 04, sem að hans mati lifir enn í fortíðinni. Rhein-Neckar Löwen urðu þýskir meistarar tvö ár í röð tímabilin 2015/2016 og 2016/2017 og bikarmeistarar 2017/2018 og 2022/2023. Liðið endaði síðasta tímabil hinsvegar í níunda sæti og árið áður í tólfta sæti. Fyrir nýja tímabilið hefur félagið gengið í gegnum miklar breytingar. Átta leikmenn hafa gengið til liðs við félagið, en jafnmargir hafa yfirgefið það, þar á meðal lykilmenn eins og þýski landsliðsmaðurinn Juri Knorr og króatíski landsliðsmaðurinn Ivan Martinovic. Haukur Þrastarson gekk í raðir félagsins fyrir tímabilið.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.