Elvar Örn Jónsson ((HENDRIK SCHMIDT / dpa Picture-Alliance via AFP)
Eftir þrjú tímabil hjá Melsungen og þar áður hjá Skjern í dönsku úrvalsdeildinni er komið að nýju kafla á ferli landsliðsmannsins, Elvars Arnar Jónssonar sem gekk í raðir Evrópumeistara Magdeburg í sumar. Hjá Magdeburg hittir Elvar Örn samherja sína hjá landsliðinu, Gísla Þorgeir Kristjánsson og Ómar Inga Magnússon sem slegið hafa í gegn með liði Magdeburg undanfarin ár. Við gætum því fengið að sjá íslenska útilínu í liði Magdeburg aftur en Janus Daði Smárason lék með liðinu á þar síðustu leiktíð áður en hann gekk í raðir Pick Szeged í Ungverjalandi fyrir síðustu leiktíð. Elvar Örn var í viðtali við SportBild á dögunum þar sem hann lýsir fyrstu dögunum í Magdeburg. ,,Gísli og Ómar hjálpuðu mér og konunni minni Þuríði mikið við að finna íbúð og klára alla nauðsynlegu pappírsvinnu. Ég hlakka til tengingarinnar við Íslendingana," sagði Elvar Örn sem er uppalinn á Selfossi og er nú fluttur í fyrsta sinn í borg á ævinni. Hann segir að íslensku liðsfélagar sínir munu eflaust hjálpa sér og fjölskyldunni að aðlagast borgarlífinu. Þó svo að Magdeburg sé ekki nein stórborg samanborið við stærstu borgir Þýskalands þá er um að ræða mikil viðbrigði fyrir landsliðsmanninn sem einungis hefur búið á Selfossi (10.000 íbúar), Skjern (8.000 íbúar) og Melsungen (14.000 íbúar) á lífsleiðinni. ,,Borgin hér er í raun mjög stór fyrir mig. En mér líkar mjög vel við það litla sem ég hef séð hingað til," sagði Elvar í samtali við þýska miðilinn Sportbild.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.