Jure Dolenec er spilandi íþróttastjóri Slovan. ((Laurent Sanson - Panoramic / Panoramic / DPPI via AFP)
Nýir meistarar í Slóveníu voru krýndir á síðustu leiktíð þegar Slovan urðu slóvenskir meistarar í fyrsta skipti í sögunni eftir að hafa endað með jafn mörg stig og sögufrægt lið Celje. Handkastið vildi aðeins fræðast um þetta nýja stórliðið sem er að verða til í Slóveníu en Slovan sótti um aðild í Meistaradeildinni en fékk ekki sæti þar. Liðið tekur þátt í Evrópudeildinni og hefur sótt til sín sterka heimamenn og enn fleiri leikmenn hafa verið orðaðir við félagið fyrir næsta tímabil. Til að fræðast um Slovan, hafði Handkastið samt við Rok Vukan slóvenskan handboltasérfræðing sem heldur úti Instagram-síðunni @handballia. Rok Vukan segir að það hafi ekki komið fólki á óvart að Slovan hafi unnið deildina á síðustu leiktíð. ,,Þetta kom ekki á óvart. Liðið var byggt upp til að vinna landsmeistaratitilinn. Við bjuggumst öll við að þau myndu vinna, Slovan var sigurstranglegast frá upphafi,” sagði Vukan. En hvað breyttist frá því að liðið var um miðja deild tímabilin á undan og í engri titilbaráttu í það að vera sigurstranglegasta lið landsins? ,,Félagið tók miklum breytingum og starfar á mun hærra stigi en það hefur gert áður. Allt þjálfarateymið er nýtt, mun reyndara og auðvitað mun betra. Nokkur stór nöfn í slóvenskum handbolta taka einnig þátt í verkefninu sem á sér stað,” sagði Vukan og nefnir þar þjálfara liðsins, Uros Zorman sem þjálfar einnig slóvenska landsliðið. Þá nefnir hann Jure Dolenec sem gekk í raðir Slovan nú í sumar eftir farsælan feril meðal annars með Barcelona og Montpellier, Boštjan Ficko fyrru landsliðsmann með tæplega 100 landsleiki og Boris Denić fyrrum markvörð slóvenska landsliðsins sem lék yfir 50 landsleiki og þjálfaði slóvenska landsliðið á árunum 2010-2015. Rok Vukan vill ekki meina að eitthvað stórt fyrirtæki hafi tekið sig til og fjármagnað verkefnið en félagið fær mikinn stuðning frá Ljubljana og borgarstjóranum, Zoran Jankovic. ,,Sumir vilja meina að hann hafi tekið hluta af RK KRIM stórliði í kvennahandboltanum sem einnig er frá Ljubljana og gefið Slovan. Þannig að Slovan fær í raun stuðning frá ríkinu.” ,,Uros Zorman tók við á undirbúningstímabilinu í fyrra. Hann byrjaði 2024/2025. Hann var fyrsta stóra nafnið sem var tilkynnt til Slovan og í kjölfarið hófst þetta stóra verkefni að gera Slovan að stórliði í Slóveníu." Leikmenn sem leika með Slovan eru meðal annars, Stas Jovicic vinstri hornamaður í slóvenska landsliðinu, Jaka Malus sem gekk í raðir félagsins frá Göppingen, Króatinn, Leon Ljevar sem var besti leikmaður slóvensku deildarinnar tímabilið áður með Riko Ribnica. Örvhenti hornamaður slóvenska landsliðsins, Gal Marguc lék með Nexe í Króatíu, króatíski línumaðurinn Ilija Brozovic og stærstu nöfnin eru sennilega Jure Dolenec sem er einnig íþróttastjóri félagsins og Stas Skube miðjumaður landsliðsins sem kom til félagsins frá Montpellier. Rok Vukan segir að miðað við styrkingar liðsins verði það formsatriði fyrir Slovan að vinna slóvensku deildina en framundan er stærra verkefni en það er þátttaka í Evrópudeildinni. Þar gæti Stjarnan verið fyrsti mótherji Slovan en til þess þarf Stjarnan að slá út rúmenska liðið Baia Mare í forkeppni Evrópudeildarinnar. ,,Margir af þeim leikönnum sem komu til félagsins eru landsliðsmenn og eru einfaldlega of góðir fyrir deildina,” sagði Ruk Vokan sem segir það ekki beint vonbrigði fyrir liðið ef það nær ekki inn í Meistaradeildina á næsta ári þrátt fyrir að stjórnendur félagsins stefni þangað. ,,Ég myndi ekki segja að það yrði vonbrigði fyrir Zorman því hann vildi ekki spila í Meistaradeildinni í ár en aðalmaður Ljubljana hélt því fram. En það verður vonbrigði fyrir stjórnarmenn Ljubljana ef þeir fá ekki sæti í Meistaradeildinni á næstu leiktíð.” Þrátt fyrir miklar styrkingar í sumar, virðist félagið hvergi nærri hætt og stefna hærra. ,,Það eru einhverjar sögusagnir um Blaž Janc, Klemen Ferlin, Tshkovrebadze og fleiri leikmenn muni ganga í raðir félagsins í framtíðinni en það er alveg ljóst að félagið mun styrkja raðir sínar enn frekar frá og með næsta tímabili," sagði Ruk Vokan að lokum í samtali við Handkastið.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.