Tryggvi Þórisson (Elverum)
Selfyssingurinn og línumaðurinn, Tryggvi Þórisson gekk í raðir Elverum í Noregi eftir að hafa leikið í Svíþjóð síðustu ár. Handkastið heyrði í Tryggva og ræddi um tíma sinn hjá Sävehof og komandi leiktíð með Elverum. Tryggvi samdi við Sävehof árið 2022 þegar hann yfirgaf uppeldisfélag sitt Selfoss. Fyrr í sumar samdi Tryggvi við Elverum eftir þriggja ára dvöl í Sävehof. Hvernig gerir þú upp tímann þinn hjá Savehof? ,,Tíminn minn hjá Sävehof var mjög góður, ég lærði mikið og varð betri leikmaður á báðum endum þó meira varnalega. Ég lærði mikið af færum þjálfurum og samherjum bæði í leikkerfum og taktík. Það var auðvitað ógleymanlegt að landa meistaratitli í Svíþjóð og takast á við Evrópukeppni öll árin mín þar, það fer í reynslubankann." Var möguleiki fyrir þig að vera áfram hjá Savehof eða var það vitað fyrir löngu að þú myndir yfirgefa liðið í sumar? ,,Ég réði því alfarið, Sävehof buðu mér samning snemma en ég vildi taka næsta skref á mínum ferli og þeir vissu af því þannig að það kom þeim ekki á óvart." Kom til greina að koma til Íslands í sumar og leika í Olís-deildinni? ,,Ég útilokaði það ekkert en það var aldrei planið en það voru nokkur spennandi tilboð í gangi þannig að það kom aldrei upp sem alvöru möguleiki." Voru mörg félög í myndinni hjá þér fyrir næsta tímabil? ,,Já ég ræddi við nokkur lið og það voru nokkrir möguleikar í stöðunni áður en ég ákvað að Elverum væri besta fyrir mig og minn feril á þessum tímapunkti." Hvernig líst þér á nýja liðið? ,,Mjög vel, það er mikil sigur hefð hjá klúbbnum sem smitast yfir í góða blöndu af ungum og eldri og reyndari leikmönnum. Þjálfarateymið allt og umgjörðin hjá liðinu er mjög góð, það eru gerðar miklar kröfu til árangurs og æfingar, skipulag og umgjörð tekur öll mið af því. Það var auðvitað upplifun að mæta á fyrstu boltaæfinguna að það voru mættir 7-800 áhorfendur og mikil stemming." Hvert verður hlutverk þitt með liðinu og hverjar eru væntingarnar þínar hjá nýju liði? ,,Ég verð hluti af línumanna liði liðsins og keppi um spiltíma, en en Børge þjálfari vill spila á þremur línumönnum, til að stjórna álagi þars sem við viljum komast langt í öllum keppnum, bikar og deild í Noregi, auk Evrópukeppninnar." Hvernig líst þér á að spila í norsku deildinni? ,,Mér líst vel á hana, ég tel hana vera góðan vettvang fyrir mig að bæta minn leik og sýna virkilega góða frammistöðu." Hvernig hafa fyrstu vikurnar verið í Noregi? ,,Þær hafa verið góðar, miklar æfingar og mikið að læra en mjög gaman allt saman. Elverum hefur tekið mjög vel á móti mér og mér líst mjög vel á aðstöðuna, þjálfarana og liðsfélagana." Hverjar eru væntingar liðsins og markmið fyrir tímabilið? ,,Það er mikill metnaður og saga í Elverum. Við viljum keppa um alla titla í Noregi sem er hægara sagt en gert og komast langt í Evrópu deildinni sem verður erfitt og spennandi verkefni."
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.