Bergischer í vandræðum – Ekki besti undirbúningurinn fyrir fyrsta leik
SVEN SIMON / dpa Picture-Alliance via AFP)

Bergischer HC (SVEN SIMON / dpa Picture-Alliance via AFP)

Það er stórt tímabil framundan hjá Arnór Þór Gunnarssyni fyrrum landsliðsmanni og atvinnumanni en hann mun stýra liði sínu Bergischer HC í fyrsta sinn sem aðalþjálfari í þýsku úrvalsdeildinni. Arnór Þór tók við liðinu fyrir síðustu leiktíð og fór með liðið upp í úrvalsdeild í fyrstu tilraun.

Áður var Arnór Þór bæði leikmaður Bergischer og aðstoðarþjálfari liðsins. Fyrsti leikur liðsins í þýsku úrvalsdeildinni verður gegn Þýskalandsmeisturunum í Fuchse Berlín í Berlín næstkomandi sunnudag.

En á sama tíma og félagið undirbýr sig fyrir krefjandi tímabil sem nýliðar í þýsku úrvalsdeildinni gæti liðið verið í vandræðum með æfingaaðstöðu.

Sama dag og liðið leikur gegn Fuchse Berlín rennur samningur þeirra um núverandi æfingahúsnæði út, 31.ágúst næstkomandi.

,,Bergischer HC verður án æfingasalar í lok mánaðarins. Samningurinn við íþróttamiðstöðina við Kanalstraße, þar sem BHC hefur æft í næstum fimm ár, rennur út í sumar. Samningur við rekstraraðila hallarinnar, Michael Kölker, náðist ekki," segir í umfjöllun Handball-world.news um málið.

„Viðræðurnar hafa mistekist. Við hörmum þetta djúpt. Þetta er afar dapurleg staða,“ sagði framkvæmdastjóri félagsins, Jörg Föste við Solinger Tageblatt.

Samkvæmt samkomulaginu átti BHC að greiða 160.000 evrur, þar með talið aukakostnað, fyrir notkun á aðstöðunni, Bergischer var ekki tilbúið að greiða þá upphæð.

Handkastið heyrði í Arnóri Þór Gunnarssyni þjálfara liðsins og spurði hann út í þetta mál.

,,Það er rétt að samningar hafa enn ekki náðst en menn eru enn að ræða saman. Við erum búnir að vera þarna í fimm ár og er þetta topp fimm handboltaaðstaða í Þýskalandi. Þess vegna er þetta sárt ef við þurfum að fara eitthvað annað," sagði Arnór Þór í samtali við Handkastið.

,,Ef þetta gengur ekki upp þá erum við með aðra höll til miðjan október og á meðan þurfum við að leita að varanlegu húsnæði sem við getum æft í."

,,Þetta er auðvitað ekki besti undirbúningur fyrir leikmenn, þjálfara og félagið sex dögum fyrir fyrsta leik í deild," sagði Arnór að lokum.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top