Monsi skoraði 10 mörk með liði sínu HC Alkaloid í dag. ((Baldur Þorgilsson)
Fjórir leikir fóru fram í Evrópudeildinni í dag en um er að ræða umspilsleiki um laus sæti í riðlakeppninni sem hefst þriðjudaginn 14. október næstkomandi. Elverum Håndball tóku á móti Bathco Bm. Torrelavega frá Spáni. Elverum réði lögum og lofum og kjöldrógu Spánverjana 38-28 eftir að hafa verið 7 mörkum yfir í hálfleik 23-16. Tryggvi Þórisson skoraði 1 mark fyrir Elverum en hann söðlaði um í sumar eftir að hafa verið í herbúðum IK Sävehof. Gömlu liðsfélagar Tryggva í IK Sävehof fóru í heimsókn til HK Malmö og unnu 7 marka sigur 33-24 eftir að hafa verið fjórum mörkum yfir í hálfleik 14-18. Birgir Steinn Jónsson skoraði 2 mörk fyrir Sävehof en hann gekk til liðs við sænska liðið í sumar. Heiðmar Felixsson og félagar í Hannover Burgdorf tóku á móti Úlfari Páli Monsa Þórðarsyni og félögum í HC Alkaloid. Heiðmar hafði betur í þessu íslenska uppgjöri en Hannover Burgdorf unnu 10 marka sigur, 37-27 eftir að hafa verið fjórum mörkum yfir í hálfleik 19-15. Monsi átti hinsvegar stórleik með sínu nýja liði og var markahæstur í liði HC Alkaloid með 10 mörk. MRK Dugo Selo tóku svo á móti MRK Sesvete í síðasta leik dagsins þar sem MRK Dugo Selo höfðu betur 32-29 eftir að hafa verið þremur mörkum yfir í hálfleik 18-15. Síðari leikir þessa umspilsleikja fara fram næstu helgi og mun þá koma í ljós hvaða lið munu taka sæti í riðlakeppninni sem hefst um miðjan október.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.