Nicolaj Jørgensen (Tom Weller / dpa Picture-Alliance via AFP)
Í maí á þessu ári þurfti danski landsliðsþjálfarinn að færa rök fyrir því afhverju danska markavélin Nicolaj Jørgensen hafi ekki fengið tækifæri með danska landsliðinu. Nicolaj Jørgensen sem skoraði 275 mörk í 30 leikjum á síðustu leiktíð fyrir Sønderjyske færði sig um set í sumar og samdi við Hamburg og leikur þar með Einar Þorsteini Ólafssyni. Jørgensen hélt uppteknum hætti frá síðasta tímabili um helgina þegar þýska úrvalsdeildin fór af stað og skoraði 11 mörk í fyrsta leik sínum með Hamburg. „Við veljum leikmenn sem passa við leikstíl landsliðsins. Nicolaj Jørgensen spilaði virkilega vel með Sønderjyske en þeir spila talsvert öðruvísi handbolta en við gerum með danska landsliðinu. Þar spilaði hann mikið 7 á 6 og við æfum það ekki mikið í landsliðinu” sagði Nikolaj Jacobsen þegar hann var spurður út í málið í maí. „Jørgensen er með virkilega sterk skot and við erum að leitast eftir leikmönnum sem eru snöggir í einn á einn stöðum. Á sama tíma þurfa leikmennirnir okkar að gera fá mistök, það er mikilvægur hlutur ef þú ætlar að spila fyrir landsliðið.” Það verður því forvitnilegt að fylgjast með framvindu mála á næstu mánuðum og hvort danski landsliðsþjálfarinn geti hreinlega litið framhjá nafna sínum fyrir næsta stórmót.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.