Kretzschmar hættir hjá Fuchse Berlín
Andreas Gora / dpa Picture-Alliance via AFP)

Stefan Kretzschmar (Andreas Gora / dpa Picture-Alliance via AFP)

Handboltagoðsögnin, Stefan Kretzschmar lætur af störfum sem íþróttastjóri Füchse Berlín í lok tímabilsins. Hann tilkynnti þetta á samfélagsmiðlum sínum. Mál Stefan Kretzschmars og Jaron Siewert þjálfara Fuchse Berlín hafa verið til umræðu síðustu vikur en samningar beggja aðila við Fuchse Berlín renna út næsta sumar.

Mikið hefur verið rætt og ritað um samningamál þeirra beggja og hefur margt bent til þess að þeir yfirgefi félagið næsta sumar. Nú er það orðið ljóst í það minnsta að Stefan Kretzschmar yfirgefur Berlín eftir tímabilið.

Í yfirlýsingu sinni á Instagram sagði Kretzschmar til að mynda þetta:

„Eftir meira en fimm ár sem íþróttastjóri Füchse Berlin hef ég ákveðið að fara nýja leið eftir að núverandi tímabili lýkur. Tímabilið 2025/26 verður mitt síðasta hjá þessu sérstaka félagi. Þetta var ótrúlega krefjandi og mótandi tími. Opinberar umræður um stefnumótun eru ekki góðar fyrir félagið. Til að draga úr þrýstingi fjölmiðla og einbeita mér að metnaðarfullum markmiðum okkar á þessu tímabili tilkynni ég ákvörðun mína í dag. Ég mun vinna af fullri ástríðu og berjast fyrir því að ná þessum markmiðum fram í júní 2026.“

Eins og fyrr segir gilda samningar Kretzschmars og þjálfarans Jaron Siewert aðeins til loka núverandi tímabils og, sem margir skilja ekki, hefur Bob Hanning framkvæmdastjóri Fuchse Berlín gert litla sem enga tilraun til að framlengja samningana, þrátt fyrir fyrsta meistaratitilinn í sögu félagsins.

Deilan hefur stigmagnast undanfarið og Hanning og Kretzschmar hafa aðeins talað saman þegar þörf krefur segir í umfjöllun Sport Bild um málið. Í vikunni skutu þeir á hvorn annan í viðtölum en Stefan Kretzschmar hefur sagt í viðtölum að undanförnu að það sé ekki hans að svara fyrir framtíðarplön félagsins þar sem hann eigi bara eitt ár eftir af samningi.

Bob Hanning tók lítið fyrir þau ummæli og í viðtali við Frankfurter Allgemeine Zeitung sagði Bob Hanning til að mynda þetta:

„Mér finnst yfirlýsingar Stefans um að hætta að skipuleggja leikmannamál vera á mörkum. Hann er starfsmaður félagsins.“

Kretzschmar segir að lokum:

„Ég er sannfærður um að Füchse, með sterkan grunn, muni halda áfram að vera eitt af efstu félögum Evrópu og laða að fleiri og fleiri aðdáendur. Nú er öll einbeiting okkar á núverandi tímabil, sem mun bjóða upp á margar áskoranir. Við skulum takast á við þær saman."

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top