Birgir Steinn var frábær er lið hans IK Sävehof tryggði sig í riðlakeppni Evrópudeildarinnar ((Raggi Óla)
Tíu leikir fóru fram í forkeppni Evrópudeildarinnar en um er að ræða síðari viðureignirnar í umspili um laust sæti í riðlakeppni Evrópudeildarinnar. Eins og svo oft áður áttum við Íslendingar nokkra fulltrúa í keppninni í dag en Stjarnan tapaði grátlega fyrir rúmenska liðinu Baia Mare eftir vítakeppni en báðir leikirnir enduðu með jafntefli. Birgir Steinn Jónsson og félagar í IK Sävehof lögðu HK Malmö að velli 38-36 í dag og unnu einvígið því samanlagt 71-60. Birgir Steinn átti stórleik og var markahæstur með 8 mörk. Þá var Reynir Stefánsson eftirlitsmaður í Partille Arena í Gautaborg. Arnór Viðarsson og liðsfélagar hans í HF Karlskrona tryggðu einnig sæti sitt í riðlakeppninni með 37-35 sigri á pólska liðinu Chobry Glogow. Arnór skoraði 2 mörk í leiknum. HF Karlskrona vann því einvígið samanlagt 70-65, eftir að hafa unnið fyrri leikinn 30-33. HC Alkaloid, sem Úlfur Páll Monsi Þórðarson leikur með, tóku á móti Heiðmari Felixssyni og félögum í Hannover Burgdorf. Þrátt fyrir betri leik í dag hjá Monsa og félögum var við ramman reip að draga eftir að fyrri leikur liðanna hafði farið 37-27 fyrir Hannover Burgdorf. HC Alkaloid töpuðu í dag 28-29 og einvíginu samanlagt 66-55. Monsi átti hinsvegar góðan leik og skoraði 7 mörk. Tryggvi Þórisson og félagar í Elverum tryggðu sér farseðilinn í riðlakeppnina með eins marks sigri á Torralavega 28-29 og einvígið samanlagt 67-56. Tryggvi skoraði ekki í leiknum en lét finna vel fyrir sér og uppskar þrisvar sinnum tveggja mínútna brottvísun. Önnur úrslit voru að Bidasoa Irun sóttu sigur á Braga 24-30 og unnu því einvígið samanlagt 65-50. HC Kriens unnu Gorenje 32-25 og einvígið samanlagt 50-59. Partizan unnu Karvina 30-26 og einvígið samanlagt 61-53. Sesvete unnu Dugo Selo 35-24 og einvígið 64-56 samanlagt. Loks mættust St. Raphael og Mors Thy þar sem St. Raphael unnu 35-32 og einvígið samanlagt 80-64. Síðustu tveir leikirnir í umspilinu fara svo fram á morgun þegar BSV Bern taka á móti MRK Cakovec og Donni og félagar í SAH - Aarhus fara í heimsókn til Maritimo da Madeira.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.