Nikolej Krickau (Andreas Gora / dpa Picture-Alliance via AFP)
Stemningin var súr á meðal áhorfenda Fuchse Berlín bæði fyrir, á meðan og eftir leik liðsins gegn Magdeburg í stórleik þýsku úrvalsdeildarinnar í gær. Um var að ræða fyrsta leik liðsins undir stjórn nýs þjálfara, Nikolej Krickau sem tók við liðinu í vikunni eftir óvænta uppsögn Jaron Siewert sem gerði liðið að þýskum meisturum í fyrsta skipti í sögu félagsins á síðustu leiktíð. Stuðningsmenn Fuchse Berlín hafa látið óánægju sína í ljós á samfélagsmiðlum í vikunni og það var nokkuð ljóst í uppseldri höll þeirra í gær að sú óánægja átti að skila sér til allra sem voru viðstaddir. Þegar Nikolej Krickau var kynntur sem þjálfari Fuchse Berlín af vallarþul leiksins eins og gert er fyrir alla leiki bauluðu áhorfendur Fuchse. Það sama var upp á teningnum þegar Bob Hanning framkvæmdastjóri félagsins fór í viðtal í hálfleik með stuðningsmenn félagsins í bakgrunn. „Ég skil það fullkomlega,“ sagði Krickau við Berliner Morgenpost og bætti við: ,,Þetta var líklega meiri virðing fyrir Jaron en vanvirðing fyrir mér.“ Bob Hanning segist viss um að hann hafi tekið rétta ákvörðun að skipta um þjálfara. „Þegar maður ber ábyrgð verður maður að standa við hana. Ég verð að sætta mig við það,“ sagði Bob Hanning. Magdeburg léku sér að lærisveinum Krickau og unnu sannfærandi átta marka sigur 39-31 eftir að hafa verið 22-13 yfir í hálfleik. Íslendingarnir í liði Magdeburg fóru á kostum og skoruðu Ómar Ingi, Elvar Örn og Gísli Þorgeir alls 20 mörk samtals.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.