1401 dagur síðan Fuchse Berlín töpuðu tveimur í röð

Fuchse Berlin (

Nicolej Krickau byrjar þjálfaraferil sinn í þýsku úrvalsdeildinni með Fuchse Berlín á tveimur töpum. Tæplega fjögur ár eru síðan Fuchse Berlín töpuðu tveimur leikjum í röð í þýsku úrvalsdeildinni og til að setja þetta í enn stærra samhengi þá tapaði liðið einungis þremur leikjum allt síðasta tímabil í þýsku úrvalsdeildinni.

Í gær tapaði Fuchse Berlín gegn lærisveinum Guðjóns Vals Sigurðssonar í Gummersbach á sannfærandi hátt, 34-29.

Krickau var vonsvikinn eftir leikinn í viðtölum og segir að mikil vinna sé framundan hjá liðinu. Það er hinsvegar ekki mikill tími til æfinga hjá liðinu því strax á fimmtudaginn fer liðið til Álaborgar og leikur þar í Meistaradeildinni.

Á sunnudag fær Þýskalandsmeistarnir síðan Melsungen í heimsókn og í næstu viku ferðast liðið til Póllands og mætir þar Kielce. Það er því mikið sem Nicolej Krickau þarf að huga að á næstu dögum og leikjum.

„Gummersbach spilaði frábæran leik og sýndi hvers vegna margir sjá þá sem keppinaut á toppi deildarinnar. Við vorum ekki með grunnatriðin rétt. Þriðja leikinn í röð byrjum við illa og okkur skortir seiglu og klókindi. Við verðum að halda áfram og hlökkum til að fá annað tækifæri strax á fimmtudaginn,“ sagði Krickau á heimasíðu Fuchse Berlín eftir leikinn í gær.

Berlín vann Nantes í 1.umferð Meistaradeildarinnar í síðustu viku og hefur Krickau því stjórnað liðinu í þremur leikjum.

Síðast þegar Fuchse Berlín töpuðu tveimur leikjum í röð í þýsku úrvalsdeildinni var í nóvember 2021 þegar liðið tapaði gegn Flensburg og síðan gegn Magdeburg 13.nóvember. Það tímabil endaði liðið í 3.sæti deildarinnar.

Nýjustu fréttir

HAFA SAMBAND

Handkastið.net

Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.

Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.


handkastid@handkastid.net

Scroll to Top