Hörður Ísafjörður (Eyjólfur Garðarsson)
Í nýjasta þætti Handkastsins var rætt um atburðarrásina sem átti sér stað eftir bikarleik ÍBV 2 og Harðar sem fór á mánudagskvöldið þar sem dómarar leiksins fengu lögreglufylgd niður á höfn eftir leik. Kristinn Björgúlfsson gestur Handkastsins fór mikinn í umræðunni og gekk svo langt að kalla eftir því að Braga Rúnari verði meinuð öll þátttaka sem viðtekur handbolta á Íslandi. ,,Það voru einhverjir sem voru að skrifa undir nafnleynd og velta því fyrir sér hvenær þessi fíaskó-i fyrir vestan að ljúka. Eru þeir allt í einu orðnir vondi kallinn?” sagði Arnar Daði þáttastjórnandi Handkastsins er hann opnaði á umræðuna um þátttöku Braga Rúnars og lætin í Herði eftir leik. ,,Þeir eru kannski ekkert vondi kallinn í þessu en hvenær á þessari hegðun að ljúka? Hversu á langt á Bragi Rúnar að fá að ganga?," sagði Kristinn en þá stakk Arnar inn að Kristinn þyrfti að útskýra mál sitt betur fyrir hlustendum. ,,Mín persónulega skoðun er að Bragi Rúnar á ekki að fá að koma nálægt handbolta á Íslandi. Hegðun hans í gegnum tíðina er skammarleg í 90% tilfella," sagði Kristinn. Arnar Daði bætti þá við og spurði hvort að allir þeir sem haga sér illa eigi ekki að sjást í kringum handboltann og bætti við: ,,Á ég að slökkva á upptökunni núna og láta mig hverfa?" ,,Hvernig getur maður kastað stól inn á völllinn eftir að hafa tapað leik? En hvernig í veröldinni ætlar þú síðan að taka upp annan stól og kasta honum í átt að dómurunum og fara síðan í lögregluna beint eftir leik?" ,,Þetta er ekki í fyrsta skipti, ekki í annað og ekki í tíunda skiptið," sagði Kristinn. Stymmi klippari bætti við í umræðuna að Bragi Rúnar hafi sent kröfur í heimabanka hjá dómurum eftir leik. ,,Við erum að tala um endurtekninga hegðun síðustu 2-3 ár. Bragi hefur örugglega verið meira í banni heldur en hann hefur verið í leyfi," sagði Stymmi. ,,Þetta er engin refsing sem hann fær. Hann á að vera í banni en verður þá bara kynnir í staðin og verður með alskonar látalæti. Það er alveg sama hvað er skrifað í skýrslur og annað… það er aldrei tekið á þessu." ,,Hvað hefði verið gert ef þetta hefði verið í fótboltanum?” spurði Kristinn að lokum. Umræðan hélt síðan áfram en umræðan hefst eftir hálftíma í nýjasta þætti Handkastsins.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.