Hrannar Guðmundsson (Sævar Jónasson)
Áhugaverður leikur fer fram í Heklu-höllinni í kvöld í 3.umferð Olís-deildar karla þegar einu stigalausu lið deildarinnar mætast, Stjarnan og HK. Hefst leikurinn klukkan 19:00 og verður sýndur í beinni í Handboltapassanum. Stjarnan hefur tapað gegn Val og ÍBV í fyrstu tveimur leikjum sínum á meðan HK hefur tapað gegn ÍBV og Aftureldingu. Hrannar Guðmundsson þjálfari Stjörnunnar gerir ráð fyrir hökuleik gegn HK í kvöld. ,,Það er ekkert launungarmál að okkur þyrstir í okkar fyrsta sigur. Mótið er hinsvegar bara rétt að byrja og þetta er rosalega jöfn deild og allir virðast geta unnið alla. Það fær ekkert lið auðveld stig í þessari deild," sagði Hrannar í samtali við Handkastið. Stjörnuliðið hefur verið að glíma við meiðsli en ljóst er að Tandri Már Konráðsson leikur ekkert með liðinu á tímabilinu og þá hafa Sveinn Andri Sveinsson og Adam Thorstensen verið frá í fyrstu tveimur leikjum liðsins. Hrannar gerir ekki ráð fyrir þeim í leiknum í kvöld. ,,Við erum með vel mannaðan hóp og mætum með sextán leikmenn á skýrslu. Fyrst og fremst þurfum við að bæta okkar leik frá leiknum gegn ÍBV og mæta betur stemmdir en við gerðum. Við erum brattir og förum fulla ferð í leikinn gegn HK, það þýðir ekkert annað," sagði Hrannar að lokum. Leikir kvöldsins: 18:30 Þór - Valur
19:00 Afturelding - KA
19:30 FH - ÍBV
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.