Kári Kristján Kristjánsson (Skapti Hallgrímsson / Akureyri.net)
Kári Kristján Kristjánsson hefur samið við nýliða Þórs. Þetta hefur félagið tilkynnt nú á samfélagsmiðlum en það var Akureyri.net sem greindu fyrst frá. Kári segir í samtali við Akureyri.net í kvöld að hann geti ekki beðið næsta leik Þórs sem verður í Vestmannaeyjum gegn sínum gömlu félögum í ÍBV. Kári skrifaði undir samning við Þór út þetta tímabil en Kári verður 41 árs síðar í haust. Það hefur ekki farið framhjá neinum lesenda Handkastsins síðustu vikur og mánuði hvernig tíma Kára lauk með sínu uppeldisfélagi ÍBV og á tímabili hélt Kári hreinlega að ferli sínum væri lokið. Nú er hinsvegar ljóst að Kári mun leika með Þór í Olís-deildinni í vetur. Kári gekk 21 árs að aldri til liðs við Hauka árið 2005, og lék með Hafnarfjarðarliðinu í fjögur ár. Þar hélt hann til Sviss og lék með ZMC Amicitia Zürich, síðan fór hann til Þýskalands og lék með HSG Wetzlar í Þýskalandi og Berringbro/Silkeborg í Danmörku. Kári kom heim úr atvinnumennsku sumarið 2014 og gekk í raðir Vals en hefur leikið með uppeldisfélaginu, ÍBV síðustu 10 ár. Kári á að baki 145 landsleiki fyrir Ísland.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.