Nikola Roganovic (Mohamed Tageldin / Middle East Images via AFP)
Það bendir allt til þess að Guðjón Valur Sigurðsson og Gummersbach séu að sækja einn efnilegasta leikmann Evrópu. Sögusagnir hafa verið í gangi síðustu daga og urðu enn háværari í gær að unglingalandsliðsmaður Svía, Nikola Roganovic myndi ganga í raðir Gummersbach næsta sumar. Nikola Roganovic sem er leikmaður Malmö í sænsku úrvalsdeildinni hefur slegið í gegn síðustu mánuði en honum er ætlað að fylla skarð Julian Köster sem gengur í raðir Kiel næsta sumar frá Gummersbach. Roganovic endaði sem næst markahæsti leikmaður sænsku úrvalsdeildarinnar á síðustu leiktíð á eftir Óla Mittún sem gekk í raðir GOG í sumar. Þá hefur hann byrjað tímabilið gríðarlega vel í Svíþjóð og skorað 21 mark í fyrstu tveimur leikjum Malmö í sænsku úrvalsdeildinni og gefið tíu stoðsendingar. Malmö hefur unnið fyrstu tvo leiki sína í deildinni eftir að hafa tapað gegn Savehof í forkeppni Evrópudeildarinnar. Nikola sem er fæddur árið 2006 var auk þess valinn besti leikstjórnandinn á HM U19 ára sem fram fór í Egyptalandi í sumar en þar enduðu Svíar í fjórða sæti eftir tap gegn Danmörku í leiknum um bronsið.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.