HK (Raggi Óla)
Það hefur vakið athygli Handkastsins í upphafi tímabils að Júlíus Flosason leikmaður HK síðustu tímabil hefur ekkert leikið með liðinu í fyrstu þremur leikjum Olís-deildarinnar. Handkastið hafði samband við Júlíus og spurði hann út í stöðu sína hjá HK og það stóð ekki á svörum hjá Júlíusi sem hefur skipt um atvinnu og segist eiga í erfiðleikum með að sinna báðu. Hann hefur því ákveðið að taka sér pásu frá handboltaiðkun. ,,Ég er byrjaður að vinna í slökkviliðinu. Ég er að slökkva elda hér og þar um borgina auk þess að bjarga mannslífum á sjúkrabílnum þess á milli. Eftir að ég fór á mismunandi vaktir undir lok síðasta tímabils þá varð það ljóst að ég gæti ekki sinnt handboltanum eins og maður þarf til að leika í efstu deild hér heima. Ég missti þar af leiðandi af mörgum æfingum undir lok síðasta tímabil," sagði Júlíus sem segir Halldór Jóhann hafa sýnt því mikinn skilning á þeim tíma. ,,Kredit á Dóra (Halldór Jóhann) fyrir skilninginn og að leyfa mér að spila helling undir lok síðasta tímabils þrátt fyrir að ég væri að misssa af æfingum," sagði Júlíus. ,,Ég vildi prófa að gera eitthvað allt annað en að æfa handbolta," sagði Júlíus sem lék með liði HK 2 í Grill66-deildinni um helgina. HK situr á botni Olís-deildarinnar án stiga en liðið er að glíma við meiðsla vandræði auk þess sem liðið hefur misst leikmenn frá síðustu leiktíð.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.