Þorvaldur Örn Þorvaldsson (Baldur Þorgilsson)
Línumaðurinn stóri og stæðilegi, Þorvaldur Örn Þorvaldsson leikmaður Vals gæti verið frá næstu vikurnar. Þetta staðfesti Ágúst Jóhannsson þjálfari Vals í samtali við Handkastið. Þorvaldur varð fyrir því áfalli að meiðast á hendi í sigri liðsins á Þór í 3.umferð efstu deildar karla í síðustu umferð. Óttast er að Þorvaldur hafi handarbrotnað. Ágúst sagði í samtali við Handkastið að óvissa ríki um alvarleika meiðslanna en Þorvaldur fer í frekari skoðun í dag og þá ætti að skýrast hversu alvarleg meiðslin eru. Valur mætir nýliðum Selfoss í 4.umferð efstu deildar annað kvöld á heimavelli klukkan 18:30 og verður leikurinn sýndur í Handboltapassanum. Ágúst segist ekki gera ráð fyrir Þorvaldi í þeim leik og jafnvel næstu leikjum Vals. Meiðslalisti Vals lengist því en nú þegar eru þeir Róbert Aron Hostert og Bjarni í Selvindi nýkomnir úr aðgerð og verða frá næstu vikurnar í það minnsta.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.