Dagur Árni Heimisson (Sævar Jónasson)
Upphafi tímabils Vals í efstu deild karla var til umræðu í nýjasta þætti Handkastsins en Valur vann torsóttann eins marks sigur gegn nýliðum Þórs í 3.umferðinni eftir skell gegn FH á heimavelli í 2.umferðinni. Ágúst Jóhannsson tók við karlaliði Vals eftir að hafa gert ótrúlega hluti með kvennalið Vals undanfarin ár. Gunnar Valur Arason og Sigurjón Friðbjörn Björnsson voru gestir Stymma klippara í síðasta þætti og stóðu ekki á skoðunum sínum gagnvart Valsliðinu. ,,Mér fannst Valsarnir alltof værukærir í upphafi leiks, sérstaklega Viktor Sig. og Dagur Árni í skotunum sínum. Þeir voru að reyna snúa boltanum í netið og hausa markvörðinn. Ég held að Gústi hafi ekkert verið ánægður hvernig þeir tveir voru að skjóta á markið í upphafi leiks,” sagði Gunnar Valur Arason einn af gestum nýjasta þáttar Handkastsins og bætti við: ,,Enda í lokin spila þeir eiginlega ekki neitt.” ,,Ég velti fyrir mér að það tekur tíma fyrir Gústa að koma sér inn í hlutina karlamegin eftir að hafa verið lengi með kvennaliðið. En ég held að hann sé ekki alveg kominn með liðið sitt,” sagði Sigurjón Friðbjörn Björnsson meðal annars og bætti við að honum finnst Gústi verið að rúlla liðinu svolítið mikið. ,,Eini leikmaðurinn sem maður er 100% viss um hver byrjar af þessum útistöðum er Allan Norðberg. Að öðruleiti hefur þetta verið svolítil rótering.” ,,Það er eins og hann sé ekki kominn alveg með sitt,” sagði Sigurjón Friðbjörn Björnsson einn af gestum Handkastsins. ,,Það hlýtur að vera áhyggjuefni hvernig Dagur Árni er að koma inn í þetta tímabil. Við erum mjög spenntir fyrir honum og ein af ástæðunum að við erum að tala um hann er að við gerum ráð fyrir miklu af honum.Það eru pínu vonbrigði hvernig hann hefur komið inn í þetta,” sagði Stymmi klippari. Dagur Árni hefur leikið fyrstu þrjá leiki Vals á tímabilinu og er með 3,7 mörk að meðaltali þar af tvö mörk úr vítum að meðaltali og 55% skotnýtingu. Hann er með 1,7 tapaðan bolta að meðtali og hefur skapað 2,7 færi í leik. ,,Hvað er hans hlutverk? Veit hann hlutverkið sitt? Maður er að horfa á þetta og þetta eru svo miklar róteringar. Ég velti fyrir mér hvort það sé að hafa áhrif á menn og sjálfstraustið. Hann er að koma úr því að vera aðal kallinn í KA og ég reikna ekkert með því að hann hafi búist við því að verða aðal maðurinn í Val en ég held að Gústi þurfi að negla niður liðið sitt meira og menn getið gengið að því vísu hvert hlutverk þeirra sé," sagði velti Sigurjón fyrir sér.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.