Rúnar Kárason (Sævar Jónasson)
Rúnar Kárason var ekki í leikmannahópi Fram í tapi liðsins gegn Haukum í 4.umferð Olís-deildar karla í gærkvöldi. Einar Jónsson þjálfari Fram sagði í viðtali við Handkastið eftir leik að það væri óljóst hversu lengi hann verði frá en hann staðfesti þó að Rúnar yrði ekki með í næstu leikjum. ,,Það er erfitt að segja mögulega 4-6 vikur það verður að koma í ljós. Ég get eiginlega ekki sagt til um það en hann verður að minnsta kosti ekki með á næstunni," sagði Einar Jónsson í viðtali við Handkastið. ,,Þetta eru ágætis leikmenn sem voru í burtu en við vorum líka að spila á mjög góðum leikmönnum sem að mínu mati stóðu sig vel," sagði Einar en Framarar töpuðu gegn Haukum 27-32 eftir jafnan leik í 50 mínútur. Hann gerir ekki ráð fyrir að því að bæta við sig leikmanni þrátt fyrir meiðslastöðuna á liðinu en Marel Baldvinsson sleit krossband á dögunum. ,,Þetta er hópurinn sem við höfum í dag og menn verða að þjappa sér saman og stíga upp. Við þurfum að æfa vel og reyna að gera okkar besta í þessu," sagði Einar Jónsson að lokum.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.