Sigtryggur Daði Rúnarsson (Eyjólfur Garðarsson)
Afar athyglisverður leikur fer fram í efstu deild karla í dag þegar 4.umferðin lýkur með einum leik í Vestmannaeyjum. Um er að ræða leik ÍBV og nýliða Þórs en leikurinn hefst klukkan 16:00 og verður sýndur í Handboltapassanum. Um er að ræða fyrsta leik Kára Kristjáns Kristjánssonar í búning Þórs en Kári gekk í raðir félagsins í vikunni. Í liði ÍBV leikur einnig, Sigtryggur Daði Rúnarsson sem er uppalinn í Þór en hefur leikið með ÍBV síðustu ár. Hann viðurkennir að það sé öðruvísi að spila gegn Þór en Sigtryggur hefur aðeins einu sinni leikið gegn sínu uppeldisfélagi. ,,Tilfinningin er skrítin, sérstaklega þegar ég hef ekki mætt þeim oftar en einu sinni. Á sama tíma er maður spenntur að mæta mönnum sem maður hefur spilað með í yngri flokkum, hefur þjálfað og meira að segja verið þjálfaður af," sagði Sigtryggur sem gerir ráð fyrir hörkuleik í dag. ,,Þórsararnir eru búnir að líta mjög vel út í byrjun móts og eiga eftir að mæta hingað með kassann úti og við viljum á sama tíma svara fyrir frammistöðuna okkar í síðasta leik." Sigtryggur var spurður út í Kára Kristján og það hvernig hann heldur að það verði að mæta honum eftir að hafa spilað með honum síðustu ár þar sem sóknarleikur ÍBV hefur mikið farið í gegnum Kára. ,,Það verður skrítin tilfinning að sjá hann mæta í öðru en ÍBV gallanum og hita upp hinumegin eftir að hafa deilt klefa og spilað með honum í svona mörg ár. En um leið og flautað verður til leiks þá verður þetta bara venjulegur handboltaleikur á móti Þór," sagði Sigtryggur sem er spenntur fyrir því verkefni að díla við Kára varnarlega. ,,Það verður alvöru verkefni. Við þekkjum það vel hvað hann er góður og erfiður að eiga við á línunni. Þannig við erum mjög spenntir að fá að glíma við það í leik," sagði Sigtryggur að lokum. Eins og fyrr segir hefst leikurinn klukkan 16:00 í Vestmannaeyjum í dag og verður leikurinn sýndur í Handboltapassanum.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.