Elín Klara hélt uppteknum hætti (KERSTIN JOENSSON / AFP)
Það var mikið um leiki á Norðurlöndunum í dag en heil átta Íslendingalið voru að spila í dag. Við byrjum í Svíþjóð þar sem kvennalið Sävehof tók á móti Benfica í forkeppni Evrópudeildarinnar. Elín Klara Þorkelsdóttir hélt uppteknum hætti frá fyrsta deildarleiknum á dögunum og átti stórleik, hún skoraði átta mörk úr tíu skotum og heimakonur unnu góðan sigur, 29-28 og taka því naumt forskot með sér til Portúgals. Í sænsku deildinni, karlamegin fóru fram þrír leikir þar sem Íslendingar komu við sögu í tveimur. Í Gautaborg tóku Sävehof á móti Hammarby í stórleik og hann stóð undir nafni og leikurinn endaði með jafntefli, 35-35. Birgir Steinn Jónsson átti góðan leik fyrir heimamenn en hann skoraði fimm mörk úr átta skotum en fjögur þeirra komu úr vítum, hann bætti við fimm stoðsendingum og fékk að auki eina brottvísun. Amo með Arnar Birki Hálfdánsson innanborðs tóku á móti IFK Skövde og liðið átti í miklum erfiðleikum í dag og tapaði nokkuð stórt á heimavelli, 21-28. Arnar Birkir skoraði fimm mörk úr tíu skotum, bætti við tveimur stoðsendingum og fékk eina brottvísun. Seinasti leikur dagsins í Svíþjóð fór fram í Eskilstuna þar sem heimamenn í Guif töpuðu fyrir IF Hallby, 26-32. Í Noregi fóru fram fimm leikir þar sem Íslendingar tóku þátt í fjórum. Meistararnir í Kolstad unnu nauman útisigur á Kristiansand, 32-33. Sigvaldi Björn Guðjónsson var frábær í liði Kolstad en hann skoraði sex mörk úr öllum sex skotum sínum, Benedikt Gunnar Óskarsson skoraði þrjú mörk úr fimm skotum og bætti við sex stoðsendingum, Arnór Snær bróðir hans skoraði tvö mörk úr tveimur skotum og var með eina stoðsendingu og að lokum fékk Sigurjón Guðmundsson tækifæri í markinu en hann varði ekki skot af þeim sextán sem hann fékk á sig. Á sama tíma unnu Arendal einnig nauman útisigur á liði Fjellhammer, 25-26. Dagur Gautason var mættur aftur í lið Arendal en hann skoraði fjögur mörk úr fjórum skotum fyrir gestina. Elverum tók á móti Halden og unnu góðan tveggja marka sigur, 30-28. Tryggvi Þórisson var hvergi sjáanlegur í liði heimamanna. Að lokum tóku Sandefjord á móti Bergen og það er óhætt að segja að þeir hafi fengið skell á heimavelli en leiknum lauk með sigri gestanna, 32-44. Þorsteinn Gauti Hjálmarsson var ekki í leikmannahópi Sandefjord að þessu sinni. Seinasti leikur dagsins í Noregi var á milli Sandnes og Nærbø en þar unnu gestirnir góðan sigur, 27-29. Að lokum förum við til Danmerkur en þar fóru TTH Holstebro í heimsókn til Álaborgar, Arnór Atla og lærisveinar hans í Holstebro héldu ágætlega í við meistarana en að lokum voru heimamenn of öflugir og unnu góðan sigur, 35-30. Jóhannes Berg Andrason átti fínan leik fyrir gestina en hann skoraði fimm mörk úr sex skotum, gaf þrjár stoðsendingar og lét finna vel fyrir sér í vörninni og fékk tvær brottvísanir. Úrslit dagsins: Evrópudeild kvenna Sävehof 29-28 Benfica Svíþjóð Sävehof 35-35 Hammarby Amo 21-28 IF Skövde Guif 26-32 Hallby Noregur Kristiansand 32-33 Kolstad Fjellhammer 25-26 Arendal Elverum 30-28 Halden Sandefjord 32-44 Bergen Danmörk Aalborg 35-30 TTH Holstebro
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.