Óðinn Þór Ríkharðsson (Andreas Joas)
Landsliðsmaðurinn, Óðinn Þór Ríkharðsson hefur skrifað undir nýjan samning við svissneska meistaraliðið Kadetten Schaffhausen sem gildir til ársins 2030. Félagið greinir frá þessu á heimasíðu sinni í dag. Óðinn Þór var með samning sem gildi til ársins 2027 en hefur nú framlengt samning sinn við Kadetten til ársins 2030. Óðinn gekk til liðs við Kadetten Schaffhausen sumarið 2022 og hefur orðið meistari í Sviss öll tímabilin sín þar. ,,Kadetten-liðið hefur gegnt mikilvægu hlutverki á mínum ferli síðustu þrjú árin. Ég hef eignast marga vini innan og í kringum liðið. Ég er ánægður að vera hluti af þessu liði og halda áfram ferðalagi mínu hér. Markmið mín eru að vinna fleiri titla, komast langt í Evrópudeildinni og spila í Meistaradeildinni með Kadetten. Okkur fjölskyldunni líður mjög vel hér. Ég trúi á verkefnið okkar og vil halda áfram að vera hluti af því," sagði Óðinn Þór á heimasíðu félagsins. Óðinn Þór hefur skorað 732 mörk í 105 leikjum með liðinu í svissnesku A-deildinni eða 6,9 mörk að meðaltali í leik. Þá hefur hann skorað 216 mörk í Evrópukeppninni fyrir svissneska félagið. Óðinn Þór var markakóngur Evrópudeildarinnar leiktíðina 2022/2023.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.