Viktor Gísli Hallgrímsson ((Kristinn Steinn Traustason)
Íslendingaslagur verður á heimsmeistaramóti félagsliða sem fram fer í Egyptalandi þessa dagana. Það varð ljóst eftir að Viktor Gísli Hallgrímsson og liðsfélagar hans í Barcelona unnu þægilegan sigur á heimamönnum í Al Ahly. Barcelona unnu Egyptana 26-21 eftir að hafa verið 14-8 yfir í hálfleik. Barcelona mætir Íslendingaliðinu Veszprém frá Ungverjalandi þar sem Bjarki Már Elísson leikur. Veszprém er ríkjandi heimsmeistari félagsliða. Bjarki Már Elísson og liðsfélagar hans í ungverska liðinu Veszprém unnu Evrópumeistara Magdeburg fyrr í dag í hinum undanúrslitaleiknum 23-20 eftir að hafa verið 9-11 undir í hálfleik. Bjarki Már skoraði eitt mark fyrir Veszprém en Gísli Þorgeir Kristjánsson var markahæstur Íslendinga í leiknum með fjögur mörk og tvær stoðsendingar fyrir Magdeburg. Elvar Örn Jónsson og Ómar Ingi Magnússon skoruðu eitt mark hvor. Viktor Gísli var með 13 varin skot eða 38% markvörslu hjá Barcelona í leiknum. Barcelona og Veszprém mætast á fimmtudaginn klukkan 17:00 en Magdeburg mætir Al Ahly klukkan 14:15 sama dag.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.