Pétur Árni Hauksson (Sævar Jónasson)
Frammistaða Péturs Árna Haukssonar í liði Stjörnunnar var til umræðu í nýjasta þætti Handkastsins þar sem Styrmir Sigurðsson, Guðjón Guðmundsson og Theodór Ingi Pálmason fóru yfir sigur Stjörnunnar á FH í 4.umferð efstu deildar karla í síðustu viku. Í þeim leik spilaði Stjarnan frábæran varnarleik en liðið vann FH 28-23 eftir að hafa verið 11-14 undir í hálfleik. Þar spilaði Pétur Árni stórt hlutverk í varnarleik Stjörnunnar. ,,Pétur Árni Hauksson er leikmaður sem er í miklu uppáhaldi hjá mér, hann var stórkostlegur. Hann var góður á báðum enda vallarins og FH-ingar réðu ekkert við varnarleik Stjörnunnar. Þeir áttu engin svör. Þeir voru staðir og höfðu engar lausnir," sagði Guðjón Guðmundsson. Theodór Ingi Pálmason tók undir þau orð og segist vera sjá allt annan Pétur heldur en á síðustu leiktíð. ,,Pétur Árni er heldur betur leikmaður sem skuldar. Ef við orðum það bara eins og það er, þá var hann ömurlegur í fyrra. Ef við hefðum hent í einhvern power rank lista í deildinni þá hefði hann sennilega verið neðstur á þeim lista," sagði Teddi og bætti við. ,,Það er mjög gott fyrir Stjörnuna að hann sé kominn til baka. Þetta er líka sterkt hjá Stjörnunni eftir erfiða byrjun á tímabilinu, þeir tapa stórt gegn ÍBV og svara með tveimur sigrum," sagði Teddi að lokum. Stjarnan fer norður á Akureyri og mætir Þór í 5.umferð efstu deildar karla. 5.umferðin í efstu deild karla:
Fimmtudagur:
18:15 KA - ÍR
18:30 Þór - Stjarnan
18:30 Selfoss - ÍBV
19:00 Afturelding - Fram
19:15 FH - HK
19:30 Haukar - Valur
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.