Jón Bjarni Ólafsson (Sævar Jónasson)
FH-ingar þurftu að sætta sig við 28-23 tap gegn Stjörnunni í 4.umferð efstu deildar karla í síðustu viku eftir að hafa verið þremur mörkum yfir í hálfleik 14-11. Stjarnan vann seinni hálfleikinn 17-9 þar sem vörn og markvarsla Stjörnuliðsins var frábær og fundu FH-ingar fá svör við vörn Stjörnunnar. Jón Bjarni Ólafsson sem hefur byrjað tímabilið vel hjá FH fann sig ekki í leiknum og voru Stjörnumenn á köflum með hann í vasanum. Theodór Ingi Pálmason var spurður af Stymma Klippara út í frammistöðu Jóns Bjarna í leiknum en margir hafa viljað sjá Jón Bjarna fá tækifæri með íslenska landsliðinu. ,,Þessi frammistaða hjá Jóni Bjarna var ekki í landsliðsklassa. FH-ingarnir eru háðir því að fá framlag frá honum. Hann skoraði þrjú mörk en hann þarf að vera með 5-6 mörk í leik,” sagði Teddi í nýjasta þætti Handkastsins. Guðjón Guðmundsson sem var gestur Handkastsins var ekki hrifinn af Jóni Bjarna í Heklu-höllinni á föstudagskvöldið. ,,Jón Bjarni var algjörlega út á túni í leiknum. Menn hafa talað hann mikið upp og tala um hann sem hugsanlegan landsliðsmann. Ég skil ekki alveg þá umræðu. Vissulega góður leikmaður, landsliðsmaður? Nei,” sagði Guðjón Guðmundsson en Jón Bjarni skoraði þrjú mörk úr fimm skotum og var skráður með tvo tapaða bolta í leiknum. ,,En hver átti að búa til eitthvað fyrir hann? Hver átti að búa til pláss til að senda á hann? Það var enginn til þess í liðinu. Því fór sem fór. Við verðum að gefa Hrannari og félögum í Stjörnunni plús í kladdann. Varnarleikurinn hjá þeim var nánast óaðfinnanlegur. FH átti engin svör," sagði Gaupi að lokum.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.