Hafþór Vignisson (Egill Bjarni Friðjónsson)
Hafþór Vignisson var ekki með Þór í tapi liðsins gegn ÍR í 16-liða úrslitum Powerade-bikarsins á sunnudaginn en ÍR vann leikinn með minnsta mun 33-32 þar sem Jökull Blöndal skoraði sigurmark ÍR undir blálokin. Hafþór fór meiddur af velli í jafntefli liðsins gegn Stjörnunni í 5.umferð Olís-deildarinnar á fimmtudagskvöldið í síðustu viku. Hafþór sagði í samtali við Handkastið að um tognun á innan og utanverðum ökkla væri um að ræða en hann sneri sig tvívegis í leiknum gegn Stjörnunni. Óvissa ríkir um alvarleika meiðslanna og hvenær Hafþór getur snúið aftur inn á völlinn en Þór mætir FH í 6.umferð Olís-deildarinnar næstkomandi fimmtudagskvöld klukkan 18:30 í Kaplakrika. Hafþór er eina örvhenta skytta Þórs en Arnór Þorri Þorsteinsson leysti hægri skyttuna töluvert í tapinu gegn ÍR í gær.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.