Guðmundur Rúnar Guðmundsson - Fjölnir (Sævar Jónasson)
Ein ótrúlegustu úrslit handboltans á Íslandi í fleiri ár litu dagsins ljós í Egilshöllinni í gær þegar Grill66-deildarlið Fjölnis sló út Olís-deildarlið Stjörnunnar í 16-liða úrslitum Powerade-bikarsins 38-35 en Fjölnir var fimm mörkum yfir í hálfleik 20-15. Það sem gerir þessi úrslit enn stærri er bikarhefð Stjörnunnar sem hafa verið fastagestir í Final4 í bikarnum síðustu ár og þá hefur erfiðlega gengið hjá Fjölni í Grill66-deildinni það sem af er ári en tveir sigrar gegn Hvíta Riddaranum í bæði deild og bikar voru einu sigrar liðsins til þessa. Handkastið heyrði í Guðmundi Rúnari Guðmundssyni þjálfara Fjölnis og spurði hann út í þennan ótrúlega sigur liðsins í gærkvöldi. Guðmundur tók undir að það mætti segja að allt hafi gengið upp hjá Fjölnissliðinu í leiknum. ,,Við vorum vel undirbúnir og náum virkilega heilsteyptum leik í nánast í 60 mínútur. Við þurftum lítið að breyta skipulagi og menn aðlöguðust sínum hlutverkum betur og betur þegar á leið,” sagði Guðmundur Rúnar sem sagðist hafa verið meðvitaður fyrir leik að um erfiðan leik væri að ræða fyrir sitt lið. ,,Ég var full meðvitaður að verkefnið væri erfitt enda Stjörnumenn með mjög gott lið og góða þjálfara. Okkar markmið var bara að halda fast í okkar upplegg og ákefð og sjá til hvernig leik það myndi bjóða uppá.” ,,Stjörnuliðið hefur í gegnum tíðina verið mikið bikarlið og náð upp góðri stemmningu í þeirri keppni. Þannig að pressan var klárlega á þeim fyrir leikinn. Í raun var ekkert sem kom mér taktískt á óvart útfrá þeim leikjum sem ég hef séð með Stjörnunni, en við vorum bara betri heilt yfir í þessum leik,” sagði Guðmundur Rúnar aðspurður hvort eitthvað hafi komið honum á óvart í leiknum. Eins og fyrr segir hefur Fjölnisliðið gengið erfiðlega í upphafi tímabils í Grill66-deildinni. Sigur gegn Hvíta Riddaranum og jafntefli gegn Víkingi í fyrstu fimm umferðum deildarinnar en töp gegn Selfossi 2, Val 2 og Haukum 2 hafa komið mönnum á óvart. ,,Þetta er í raun alveg nýtt Fjölnislið með marga nýja leikmenn og nýjar pælingar um hvernig við getum átt meiri möguleika gegn Olís deildar liðum þegar við komumst aftur í deild þeirra bestu. Það hefur gengið brösulega í fyrstu leikjum að ná jafnvægi í okkar leik, en með hverjum leiknum höfum við lært helling og markmiðið er að liðið springi út á réttum tíma,” sagði Guðmundur Rúnar að lokum í samtali við Handkastið.
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.