Elín Klara heldur áfram að spila vel (KERSTIN JOENSSON / AFP)
Í kvöld fóru fram leikir í dönsku og sænsku úrvalsdeildinni en fjögur Íslendingalið voru að spila en við byrjum í Svíþjóð en þar heldur Elín Klara Þorkelsdóttir áfram að spila frábærlega fyrir Sävehof. Sävehof tók á móti Aranäs á heimavelli sínum í Gautaborg. Það var fátt um varnir í leiknum en heimakonur unnu 40-32 en staðan í hálfleik var 22-13 fyrir heimakonur. Elín Klara átti frábæran leik og var markahæst hjá Sävehof en hún skoraði átta mörk úr ellefu skotum þar af voru þrjú mörk úr vítum og síðan bætti hún við einni stoðsendingu. Beint eftir kvennaleiknum var komið að karlalið Sävehof en þeir tóku á móti Önnereds HK og stuðningsmenn liðsins sáu fyrir sér tvöfaldan sigur og gott kvöld en Önnereds voru ekki sammála því og þeir jöfnuðu leikinn þegar aðeins sautján sekúndur voru eftir af leiknum, lokastaðan 32-32 í hörkuleik. Birgir Steinn Jónsson átti erfitt uppdráttar sóknarlega í kvöld en hann skoraði ekki mark úr fjórum skotum sínum. Einar Bragi Aðalsteinsson og liðsfélagar hans í Kristianstad fóru í heimsókn til Alingsås og mættu þar heimamönnum. Þeir tóku stigin tvö með sér heim en þeir unnu að lokum sex marka sigur, 31-37 og Einar Bragi átti flottan leik fyrir gestina. Hann skoraði sex mörk úr tólf skotum, bætti við fjórum stoðsendingum og lét einnig finna vel fyrir sér í vörninni og fékk tvisvar sinnum brottvísun. Að lokum förum við yfir til Danmörku en þar unnu Skanderborg frábæran útisigur á Bjerringbro-Silkeborg, 28-35 urðu lokatölurnar og Kristján Örn Kristjánsson átti flottan leik í liði gestanna. Hann skoraði sex mörk úr tíu skotum og bætti við fjórum stoðsendingum. Úrslit kvöldsins: Sävehof 40-32 Aranäs Sävehof 32-32 Önnereds HK Alingsås HK 31-37 Kristianstad Bjerringbro-Silkeborg 28-35 Skanderborg
Handkastið er hlaðvarpsþáttur og fréttamiðill um íslenskan og erlendan handbolta.
Ritstjórar eru Arnar Daði Arnarsson og Styrmir Sigurðsson.